Úkraínska leyniþjónustan segir að Vitalí Gerasimov, majór-hershöfðingi og fyrsti varaforingi 41. hersins í Miðhersvæði Rússlands hafi verið felldur í dag í nágrenni Karkív. Þá hafi nokkrir háttsettir rússneskir herforingjar einnig verið drepnir eða særðir í sömu átökum.
Ekki er um að ræða Vassilí Gerasimov, yfirmann rússneska herráðsins, en Vitalí tók þátt í seinna Téténíustríðinu og aðgerðum rússneska hersins í Sýrlandi. Þá fékk hann orðu fyrir þátttöku sína í yfirtöku Krímskagans árið 2014.
Mun þetta vera annar rússneski hershöfðinginn sem fellur í Úkraínu á innan við viku. Andrei Sukovetskí, hershöfðingi í fallhlífasveitum Rússa, var skotinn af leyniskyttu á miðvikudaginn. Þá hafa fleiri háttsettir rússneskir liðsforingjar fallið í bardögum í vikunni, og segja varnarmálasérfræðingar á Vesturlöndum það mögulega til marks um að þeir þurfi að hætta sér nær víglínunni vegna þess hversu illa sókn Rússa hafi gengið.