Íslendingar berjist ekki

Úkraínskir hermenn kveikja eld til að halda á sér hita …
Úkraínskir hermenn kveikja eld til að halda á sér hita í Lúhansk-héraði. AFP

Utanríkisráðuneytið mælir gegn því að íslenskir ríkisborgarar fari til Úkraínu að berjast í stríðinu sem þar geisar vegna innrásar Rússa í landið.

„Við höfum ráðið eindregið frá því. Aðstæðnanna vegna er ekki hægt að veita borgaraþjónustu, til dæmis, á slíkum stöðum,“ segir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Hann segir að engar tilkynningar hafi borist ráðuneytinu vegna einstaklinga sem vilji ganga til liðs við her Úkraínu. Hafa skuli þó í huga að hafi einhverjir farið eða hafi það í hyggju tilkynni þeir utanríkisráðuneytinu það ekki endilega.

Spurður hvort íslenskum ríkisborgurum sem búa þar í landi hafi verið ráðlagt að snúa til Íslands þegar stríðið braust út svarar hann því til að engin slík tilmæli hafi verið send til fólks en athygli hafi þó verið vakin á stöðunni.

„Við erum í virku sambandi við þau sem hafa sett sig í samband við okkur.“

Danir gefa grænt ljós

Tuttugu þúsund erlendir sjálfboðaliðar hafa ferðast til Úkraínu í því skyni að hjálpa heimamönnum að verjast innrás Rússa og koma flestir þeirra frá Evrópu að sögn Dmítrós Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu.

Volodemír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur formlega boðið útlendingum til landsins til að mynda nokkurs konar alþjóðlega hersveit sem barist geti við hlið Úkraínumanna gegn Rússum. Auglýst var því eftir sjálfboðaliðum í úkraínskum sendiráðum.

Stjórnvöld í Danmörku og Tékklandi eru á meðal þeirra sem gefið hafa ríkisborgurum sínum grænt ljós á að berjast í Úkraínu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert