Leggja niður vopn til að greiða leið flóttamanna

Maður spilar á píanó fyrir farþega sem halda á lestarstöð …
Maður spilar á píanó fyrir farþega sem halda á lestarstöð í Kænugarði í von sinni um flótta frá stríði. AFP

Rússar munu opna á flóttaleiðir, og leggja niður vopn á meðan, út úr nokkrum borgum í Úkraínu í dag samkvæmt rússneskum fjölmiðlum. 

Vopnahléið mun taka gildi frá klukkan 10 á rússneskum tíma og samkvæmt tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Rússlands mun vera óhætt fyrir Úkraínumenn að leggja á flótta frá Kænugarði, Karkív, Maríupol og Súmí-héraði. Öll þessi svæði eru nú undir mikilli rússneskri ásókn. 

Úkraínskir miðlar og yfirvöld hafa ekki staðfest fregnirnar af vopnahléi. 

Um helgina voru gerðar tvær misheppnaðar atlögur að vopnahléi til þess að leyfa íbúum Maríupol að flýja – Maríupol er nú umsetið af rússneskum hersveitum. 

Úkraínumenn segja ástæðu þess að vopnahlé héldu ekki vera að rússneskar hersveitir hafi áfram skotið sprengjum að svæði þar sem fólk reyndi að leggja á flótta, á tímum þar sem samið hafði verið um vopnahlé. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert