Rússneskar hersveitir hafa sótt fast að úkraínskum borgum úr lofti, láði og legi í nótt og morgun og telja sérfræðingar að stór árás á Kænugarð sé í undirbúningi.
Á meðan eru óttaslegnir borgarar í Maríupol innlyksa í borg sem sprengjum hefur rignt yfir í fleiri daga, án rennandi vatns og rafmagns. Maríupol er sem stendur umkringd af Rússum.
Rússneskir miðlar greina frá því að boðað hafi verið vopnahlé í kring um helstu borgir Úkraínu svo að flóttamönnum sé óhætt að leggja land undir fót. Vopnahléið hefur ekki verið staðfest af úkraínskum stjórnvöldum en tvisvar hafa vopnahlé runnið í sandinn á stuttum tíma í kring um Maríupol þar sem sprengingar af hálfu Rússa hafa ekki hætt – þrátt fyrir boðað vopnahlé.
Linnulausar skotárásirnar hafa ollið því að yfir ein og hálf milljón Úkraínumanna hafa lagt á flótta yfir landamæri Úkraínu og er talið að mikill fjöldi til viðbótar sé á leið sinni yfir landamærin eða hafi flúið heimili sín og sótt skjól annað innan föðurlandsins.
Viðskiptaþvinganir af hálfu Vesturlanda hafa til þessa ekki haft áhrif á sóknarþunga Rússa inn í Úkraínu og er innkaupabann við rússneskri olíu nú rætt í Washington – höfuðborg Bandaríkjanna – og í Evrópu.
Í kjölfar fregna af fyrirætlunum náði heimsmarkaðsverð hámarksverði sínu í yfir fjórtán ár.
Loftvarnarsírenur óma í borgum Úkraínu; í Kænugarði og í Karkív þar sem sprengjuregnið hefur varla stoppað í nokkra daga.