Vináttan við Rússa „mjög traust“

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína.
Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. AFP

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, segir vináttuna á milli kínverskra og rússneskra yfirvalda enn vera mjög trausta þrátt fyrir að Rússar hafi verið fordæmdir á alþjóðavísu vegna innrásar sinnar í Úkraínu. Hann segir Kínverja vera opna fyrir því að aðstoða við að koma á friði.

Kínverjar hafa hingað til neitað að fordæma samherja sína frá Rússlandi og í síðasta mánuði sögðu þeir engin takmörk á vináttu landanna tveggja.

„Vináttan á milli þessara tveggja landa er mjög traust og horfur á framtíðarsamstarfi þeirra beggja eru mjög góðar,“ sagði Wang á blaðamannafundi.

Hann sagði Kínverja engu að síður vera „tilbúna til að starfa með alþjóðasamfélaginu til að ná nauðsynlegu samkomulagi þegar þörf er á því“.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, sagði í síðustu viku að Kínverjar ættu að taka þátt í að koma á friði á milli Rússa og Úkraínu í stað vesturvelda sem gætu ekki uppfyllt það hlutverk.

Kínversk stjórnvöld hafa ítrekað talað um að þau vilji taka þátt í að koma á samningaviðræðum til að leysa vandann en hafa hingað til ekki talað um að taka beinan þátt í slíkum viðræðum.

Wang greindi einnig frá því að Kínverjar ætluðu að veita Úkraínumönnum mannúðaraðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert