Heimamenn í hafnarborginni Ódessu sjást hér hlaða sandpokavígi við ströndina, en óttast var að Rússar hygðust reyna þar strandhögg á næstu dögum. Borgin er helsta hafnarborg Úkraínu og mikilvæg lífæð fyrir efnahag landsins, en hún skipar jafnframt stóran sess í sögu Rússlands.
Rússar héldu áfram árásum sínum með stórskotaliði á helstu borgir Úkraínu, á sama tíma og viðræður stóðu yfir um flóttaleiðir úr borgunum fyrir almenna borgara. Vestræn ríki styrkja enn varnir sínar vegna innrásarinnar, en Bandaríkjaher tilkynnti í gærkvöldi að hann hygðist senda 500 manns til viðbótar til herstöðva sinna í austurhluta Evrópu.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði í gær við mbl.is að ekki væri hægt að útiloka breytingar á fyrirkomulagi loftrýmisgæslu hér á landi vegna stríðsins í Úkraínu, en Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra, segir við Morgunblaðið í dag að tal um fasta viðveru varnarliðs hér á landi sé óþarfi. Bryndís Bjarnadóttir, öryggissérfræðingur hjá Fjarskiptastofu, segir að hættan á netárásum hér sé raunveruleg.