„Ég held að segja megi að andrúmsloftið hér í Moskvu sé svolítið blendið. Auðvitað hefur þessi staða sem er uppi áhrif á fólk,“ segir Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi.
Árni er nýkominn aftur til Moskvu eftir að hafa verið á Íslandi í nokkra daga í liðnum mánuði. Meðan á heimsókn hans til heimalandsins stóð réðust Rússar inn í Úkraínu. Ferðin frá Íslandi til Rússlands gekk að sögn Árna ágætlega. Hann þurfti þó að taka á sig krók og fara landleiðina frá Helsinki til Moskvu. „Þetta tók dálítinn tíma en það tekur reyndar alltaf góðan tíma að fara í gegnum landamærin hér í Rússlandi. Þeir skoða allt í krók og kring.“
Árni segir að fólk í Rússlandi viti vel hvað er í gangi en þurfi þó að búa við einhliða fréttaflutning af þróun mála. „Almenningur fær sína þekkingu og vitneskju úr fjölmiðlum, sjónvarpsstöðvunum sérstaklega, sem eru á vegum stjórnvalda. Þær flytja fréttirnar í takt við það sem stjórnvöld vilja.“
Hann segir að Rússar horfi upp á rúbluna hríðfalla, hlutabréfamarkaður sé í frosti og verðbólga rjúki upp. „Vestræn fyrirtæki eru að flytja sig úr landinu og fólk missir vinnuna. Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á almenning. Fólk er óttaslegið, óvissan er alltaf erfið fyrir fólk. Við Íslendingarnir hérna erum að fylgjast með þróuninni og erum í sjálfu sér við öllu búin. Við reynum að halda yfirsýn yfir Íslendinga sem eru í landinu eða hafa sterk tengsl hingað og við vitum nokkurn veginn hvernig staðan á fólki er. Í sjálfu sér er ekki mikið að sjá úti á götu þótt við höfum orðið vör við meiri löggæslu og jafnvel hermenn sem tengist mótmælum. Búðir, veitingastaðir, kaffihús og þess háttar eru opin hér.“
Í gær var tilkynnt að rússnesk yfirvöld hefðu sett Ísland á lista yfir óvinveittar þjóðir ásamt 47 öðrum. Sendiherrann kveðst ekki vita hvað felst nákvæmlega í því, það hafi ekki verið útskýrt frekar en að þessi ráðstöfun vísi í takmarkanir á fjármagnsflutningum fyrirtækja þessara þjóða. „Ég veit ekki hvort þetta hefur diplómatísk áhrif eins og sakir standa.“
Árni Þór segir erfitt að segja fyrir um hvernig mál muni þróast á næstu dögum. „Það er ekkert sem bendir til þess í augnablikinu að það sé að draga úr sókn rússneska hersins. Við höfum fengið fréttir af einhverjum diplómatískum samskiptum, til dæmis fundi utanríkisráðherra í Tyrklandi, en ég veit ekki hvort það skilar einhverju. Það er því eitthvað í gangi en erfitt að segja hvað verður.“