Margeir Pétursson, hluthafi í Bank Lviv, sem búsettur er í borginni Lviv í Úkraínu, segist hafa yfirgefið landið. Hann heldur nú til á meginlandi Evrópu eftir að hafa stoppað á Íslandi, en fylgist grannt með ástandinu í heimaborginni.
„Ég fór um síðustu helgi, aðfararnótt sunnudags. Það voru Íslendingar sem voru staddir í borginni og vantaði nauðsynlega far svo ég ákvað að taka þá með mér, kom þeim út og fór sjálfur líka. Fimm Íslendingar fyrir utan mig,“ segir Margeir í samtali við mbl.is.
„Það er ágætis ástand í bankanum miðað við allt. Hann er opinn allsstaðar nema í Kænugarði, við höfum ekki getað opnað þar síðan 24. febrúar,“ segir Margeir um Bank Lviv.
Margeir segist fylgjast grannt með ástandinu í Lviv, sem er staðsett um 70 kílómetra frá landamærum Póllands. Ástandið í borginni er betra en víða annarsstaðar í landinu, en þrátt fyrir það hafa m.a. söfn og önnur menningarhús gert ráðstafanir til þess að koma menningarminjum í öruggt skjól sæti borgin innrás.
„Ég hringi þarna oft á dag. Það er rólegt í borginni, mikið af flóttafólki þar saman komið. Það eru margir sem eru að bíða og sjá til og hafa komið þangað frá Kænugarði. Það eru öll hótel og gistiheimili algjörlega troðin í Lviv og nágrenni. Hún er bara 70 kílómetra frá Póllandi svo fólk upplifir sig mun öruggara,“ segir Margeir.
Spurður hvort að til standi að snúa aftur til Lviv segir Margeir:
„Ég er bara að sjá til, fylgist með fréttum og tala við fólk á staðnum. Ég er bara í viðbragðsstöðu.“