Ætla að beita Vesturlönd gagnaðgerðum

Mikið eyðilögð bygging í borginni Karkív eftir árás Rússa.
Mikið eyðilögð bygging í borginni Karkív eftir árás Rússa. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa gefið það út að þau vinni nú að andsvari við þeim umfangsmiklu refsiaðgerðum sem Vesturlönd hafa beitt landið vegna innrásar rússneskra hersveita í Úkraínu. 

Evrópusambandið hefur beitt Rússa víðtækum refsiaðgerðum sem og Bandaríkin, Bretland og fleiri. Ísland hefur tekið þátt í refsiaðgerðum Evrópusambandsins. 

Sem dæmi um nýjustu refsiaðgerðir gegn Rússlandi má nefna ákvörðun Joes Bidens Bandaríkjaforseta um að banna kaup á eldsneyti frá Rússlandi. Hann tilkynnti bannið í gær. 

Beinast að viðkvæmum geirum

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur ítrekað biðlað til Vesturlanda um að herða refsiaðgerðir gegn Rússlandi, síðast í nýliðinni viku.

Gagnaðgerðir rússneskra stjórnvalda verða umtalsverðar og eiga þær að beinast gegn „viðkvæmum“ geirum, að sögn Dmítrís Bírísjevskís, yfirmanns efnahagssamvinnusviðs utanríkisráðuneytis Rússa sem ræddi málið við rússneska fréttamiðilinn RIA. Aðgerðirnar hafa hvorki verið tilkynntar né samþykktar en Bírísjevskí gerir ráð fyrir að það gerist bráðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert