Það sem byrjaði sem einfaldur stafur myndaður úr þremur hvítum línum er nú orðið að tákni Úkraínustríðsins og þeirra sem styðja hernaðaraðgerðir Pútíns Rússlandsforseta. Fyrir herinn táknar zetan á landtækjunum ekkert annað en að viðkomandi sveitir komi úr eystri hersöfnuði rússneska hersins en heima í Rússlandi er zetan orðin að sterku pólitísku tákni. Er stemningin í kringum zetuna, að mati sumra fræðimanna, farin að minna óþægilega mikið á þá stöðu sem hakakrossinn hafði innan Þriðja ríkis Þýskalands. Og það á innan við tveimur vikum.
Ungur rússneskur íþróttamaður, Ivan Kulniak, komst nýverið í heimsfréttirnar eftir að hann myndaði z-merki með límbandi á keppnisbúning sinn og stillti sér síðan upp fyrir myndatöku við hliðina á úkraínskum keppanda. Síðan þá eru zetur farnar að spretta upp um allt Rússland. Þær er m.a. að finna á húsveggjum, auglýsingaskiltum, almenningssvæðum og búðargluggum svo fátt eitt sé nefnt. Þá eru zeturnar einnig komnar á fatnað, en hægt er að kaupa boli, peysur og jakka með tákninu og hafa m.a. ungliðar stjórnmálahreyfinga sem og aðrir birt myndir af sér í slíkum fötum. Þá eru hörðustu stuðningsmenn Pútíns Rússlandsforseta fyrir löngu búnir að tileinka sér zetuna og er hún því áberandi á fjöldasamkomum þeirra.
Landsveitir þær sem mynda innrásarlið Rússlandsforseta notast við minnst sex merki til að aðgreina sig. Auk zetunnar fyrir eystri hersöfnuð er zeta inni í kassa tákn fyrir sveitir frá Krímskaga, hringur táknar sveitir frá Hvíta-Rússlandi, V er merki fyrir landgönguliða, X fyrir sveitir Tétsena og A fyrir sérsveitir Spetsnaz. Ekki er útilokað að fleiri merkingar séu í notkun.
Þá má einnig nefna að zeturnar birtust vestrænum leyniþjónustum fyrst aðeins skömmu fyrir innrásina. Merkingarnar, sem í flestum tilfellum voru málaðar á landtækin í miklum flýti, voru því með fyrstu vísbendingum um að innrás væri að fullu ákveðin.