Tsjernobyl kjarnorkuverið sendir ekki lengur gögn til kjarnorkueftirlits Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Frá þessu greindu SÞ í gær og lýstu áhyggjum af starfsfólki sem starfar í stöðinni undir eftirliti rússneskra gæslumanna.
24. febrúar réðust Rússar inn í Úkraínu og hertóku kjarnorkuverið í kjölfarið. Þar varð skelfilegt slys áið 1986 sem kostaði hundruð lífið og olli geislamengun í vestur-Evrópu.
Rafael Grossi, framkvæmdastjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar [stofnunar innan SÞ], sagði í gær að stofnunin sé nú að skoða stöðu öryggisvarnareftirlitskerfa á öðrum stöðum í Úkraínu. Þá muni hún veita frekari upplýsingar um það fljótlega.
Markmið stofnunarinnar er að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna með eftirliti í viðleitni til þess að koma fljótt auga á það ef slík vopn eru misnotuð.
Fleiri en 200 starfsmenn kjarnorkuversins, bæði tæknistarfsmenn og verðir, eru enn fastir í kjarnorkuverinu og hafa starfað þar í 13 daga samfleytt frá valdatöku Rússa.
Ástandið fyrir starfsfólkið „fer versnandi“ að sögn Grossi sem vitnaði í úkraínska kjarnorkueftirlitið.
Í verinu eru kjarnaofnar sem teknir hafa verið úr notkun sem og úrgangssvæði fyrir geislavirk efni.
Fleiri en 2.000 starfsmenn starfa í verinu þó þar sé ekki framleidd kjarnorka lengur. Ástæðan fyrir starfsmannafjöldanum er sú að kjarnorkuverið krefst sífellds eftirlits til þess að hægt sé að koma í veg fyrir annað kjarnorkuslys.
Grossi hvatti rússnesk stjórnvöld til þess að leyfa starfsmönnum að skiptast á að vinna þar sem hvíld þeirra skipti miklu máli til þess að tryggja öryggi staðarins.
„Ég hef miklar áhyggjur af erfiðri og streituvaldandi stöðu sem starfsfólkið í Tsjernobyl kjarnorkuverinu stendur frammi fyrir og hugsanlegri áhættu sem það hefur í för með sér,“ sagði Grossi.