Lifði í tvo mánuði með svínshjarta

David Bennet, fyrsti maðurinn sem grætt var í hjarta úr …
David Bennet, fyrsti maðurinn sem grætt var í hjarta úr erfðabreyttu svíni er hér stuttu eftir aðgerð, (t.h.) með skurðlækninum, Dr. Bartley Griffith, sem framkvæmdi aðgerðina á háskólasjúkrahúsinu í Maryland. AFP

David Bennet, fyrsti maðurinn sem grætt var í hjarta úr erfðabreyttu svíni lést í gær, tveimur mánuðum eftir aðgerðina. Vonir stóðu til að sambærilegar aðgerðir gætu hugsanlega leyst mikla eftirspurn eftir líffærum og þrátt fyrir andlát David Bennet, telur teymið sem stóð að aðgerðinni möguleika á því að líffæragjafir milli tegunda gætu orðið mikilvægar í framtíðinni.

Í tilkynningu frá háskólasjúkrahúsinu í Maryland  var sagt að ástand David Bennet hefði hrakað mikið síðustu daga. „Þegar ljóst var að hann myndi ekki ná heilsu, var honum veitt líknandi meðferð og hann var í sambandi við fjölskyldu sína síðustu klukkustundirnar.“

Mynd frá aðgerðinni 7. janúar sl. á háskólasjúkrahúsinu í Maryland.
Mynd frá aðgerðinni 7. janúar sl. á háskólasjúkrahúsinu í Maryland. AFP

David Bennet, sem var 57 ára, gekkst undir aðgerðina 7. janúar sl. og var litið á aðgerðina sem síðustu von hans um lækningu, en heilsa hans var það slæm að hann komst ekki á biðlista um hefðbundna líffæraígræðslu.

Eftir aðgerðina leit allt vel út og líkami hans hafnaði ekki hjartanu fyrstu vikurnar, en síðustu daga fór heilsu hans að hraka hratt. Í tilkynningunni kemur fram að David Bennet hafi barist til síðasta dags og fjölskyldu hans vottuð samúð.

„Við höfum fengið ómetanlega innsýn í svona aðgerðir og að hjarta úr erfðabreyttum svínum geta virkað í mannslíkamanum á meðan ónæmiskerfið er nægilega bælt,“ sagði Mohammad Mohiuddin, forstöðumaður deildar sjúkrahússins sem er að rannsaka hjartaígræðslur með hjörtum úr erfðabreyttum svínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert