Loksins tólf dögum eftir að Rússar hófu innrás í Úkraínu segir Sergei að hann sé að ná að stilla sig inn á þá hugsun að stríð sé í gangi í heimalandinu og velta fyrir sér skammtíma- og langtímaplönum. Foreldrar Jaroslavs komust yfir landamærin til Rúmeníu, en þó ekki án vandræða hjá landamæravörðum.
Við höldum áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borginni Ódessa í suðurhluta landsins og hjónunum Sergei og Irínu í Lviv í vesturhluta landsins, en þau deila með mbl.is reglulegum dagbókarfærslum sínum um ástandið, upplifun sína og hvað er efst í huga almennra borgara eftir að stríð hefur brotist út í eigin landi.
Sergei og Irína í Lviv
Tólfti dagur stríðsins. Hugurinn stillti sig loksins á „það er stríð í gangi hér í landi“ stillinguna.
Skammtímaplön: Spara pening og mat eins mikið og hægt er. Veit ekki hversu mikið við munum þurfa af báðu á næstunni.
Langtímaplan: Vona að vinnan fari af stað aftur eftir sigur Úkraínu svo ég geti farið að sjá fyrir okkur á ný. Svo auðvitað langar mig í langt og gott frí með fjölskyldunni.
Það stefnir í að mikið verði að gera í sjálfboðavinnunni á morgun þannig að ég þarf að sofa vel í nótt.
Staðan: Reyna að hugsa ekki um efnahagsaðstæður og gengi úkraínska gjaldmiðilsins.
Jaroslav í Ódessa
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna og líka afmælið hans pabba. Foreldrar mínir komust yfir til Rúmeníu. Þau hringdu í dag og sögðu mér frá því hvernig var að komast yfir landamærin. Fyrst var pabba meinað að fara til Rúmeníu þar sem hermennirnir vildu ekki taka skilríkin hans gild. Ástæðan er að hann er með mjög gömul hermannaskilríki (meira en 30 ára gömul) og allt var skrifað með blýanti, en skilríkin voru gerð í Sovétríkjunum.
Hermennirnir voru í meira en hálftíma ásamt yfirmanni sínum að ákveða hvað gera skildi með pabba og hvort hann fengi að fara úr landi [innsk. blm: flestum karlmönnum hefur verið meinað að yfirgefa Úkraínu eftir að stríðið braust út svo þeir geti tekið upp vopn og barist ef á þarf]. Pabbi sat á meðan og beið í hjólastólnum sínum, en hann hefur ekki getað gengið sjálfur síðan ég fæddist. Það hefur því væntanlega verið frekar fáránlegt að horfa upp á þetta.
En allt gekk að lokum og þau komust yfir landamærin þar sem fjöldi sjálfboðaliða í Moldóva tók á móti þeim. Þau fengu mat og nauðsynjavörur og meira að segja frían bílaþvott. Allskonar fríðindi greinilega fyrir flóttafólk! Þannig að núna er ég rólegri þar sem öryggi þeirra skiptir mig höfuðmáli.
Í sannleika sagt hef ég oft velt því fyrir mér hvernig er að vera höfuð heimilisins, en ég átti aldrei von á að það yrði þegar ég væri einn eftir og stríð hefði brotist út.
Farið varlega og sýnið styrk!
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði er nú snjór í Ódessu, en þar er hitastig nálægt frostmarki.