Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir Rússa ekki ætla að hverfa frá samningum sínum um útflutning olíu og gass þrátt fyrir harðar refsiaðgerðir Vesturlanda vegna stríðsins í Úkraínu.
„Við munum áfram virða allar skyldur okkar hvað varða orkuútflutning,“ sagði Pútín á ríkisstjórnarfundi sem var sjónvarpað frá.
Þá sagði hann einnig að staðið yrði við skuldbindingar við Úkraínumenn og að gasleiðslur þangað yrðu „hundrað prósent fylltar“ líkt og kveðið er á um í samningum.
Hann vara þó við að refsiaðgerðir Vesturlanda gætu leitt til mikillar verðhækkunar á matvælum á alþjóðamarkaði þar sem Rússland væri einn helsti framleiðandi áburðar í heiminum, sem er nauðsynlegur fyrir matvælaframleiðslu.
„Rússar og Hvítrússar eru hluti stærstu steinefnaáburða birgjum heims. Ef þeir halda áfram að skapa vandamál varðandi fjármögnun og flutning á vörum okkar, þá munu verð hækka og það mun hafa áhrif á lokavöruna, matvælin,“ sagði Pútín á ríkisstjórnarfundinum.
Frá því að innrásin í Úkraínu hófst hafa Rússar sætt einum hörðustu refsiaðgerðum sem Vesturlöndin hafa gripið til. Á þriðjudag tilkynnti Joe Biden Bandaríkjaforseti svo bann á kaupum á eldsneyti frá Rússlandi. Ekki er vitað hvaða áhrif það mun hafa en Biden sagði þetta sterkt útspil.
Fyrr í dag tilkynntu Rússar að þeir hygðust svara refsiaðgerðum Vesturlanda með útflutningsbanni á ríflega 200 mismunandi vörum.
Bannið, sem verður í gildi út þetta ár, mun m.a. ná yfir landbúnaðarvélar, bifreiðar, tækni- og raftæki, auk tækja ætluð til samskipta og lækninga, að því er fram kemur í skipun sem Mikhaíl Mishustin forsætisráðherra Rússlands undirritaði.
Eins og kom fram í máli Pútíns virðist það útspil þó ekki ná til orkuútflutnings.