„Versnandi staða öryggismála hefur haft í för með sér aukin verkefni bandalagsríkja á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum, og aukið umfang starfseminnar á öryggissvæðinu í Keflavík,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í umræðum um utanríkis- og alþjóðamál á Alþingi í dag.
Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að þó skýrslan miðist við árið 2021 hafi ekki verið hjá því komist að minnast á innrás Rússlands í Úkraínu og þá víðsjárverðu tíma sem við horfum nú fram á í öryggismálum í Evrópu.
„Eins og sést hefur glöggt að undanförnu skipar Íslands sér dyggilega í hóp með lýðræðisríkjum sem fylkja sér virðingu fyrir mannréttindum, lýðræði, jafnrétti og frelsi. Það eru þeir þræðir sem eru samofnir öllu starfi Íslands á alþjóðavettvangi. Á vettvangi alþjóðlegra stofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og Evrópuráðið tala íslensk stjórnvöld skýrt fyrir þessum gildum,“ sagði ráðherra í ræðu sinni.
Hún sagði að fyrir utan stríðsrekstur Rússa í Evrópu mætti nefna að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru gætti enn mjög. Eftir að faraldurinn skall á hafi sárafátækum fjölgað í fyrsta skipti í tvo áratugi.
„Stjórnvöld í ýmsum ríkjum hafa skákað í skjóli þess að lýðræðislegt aðhald er þar lítið til þess að takmarka í nafni sóttvarna margvísleg einstaklingsbundin mannréttindi. Hið sama átti sér stað, í mismiklum mæli, um heim allan, þar á meðal í löndum þar sem virðing fyrir borgaralegum réttindum á djúpar rætur í samfélagi og þjóðarsál. Ég hef lýst áhyggjum mínum af þessari þróun og því hversu takmörkuð umræða hefur átt sér stað um skerðingu þessara réttinda,“ sagði utanríkisráðherra jafnframt.