Fleiri fyrirtæki bætast í hópinn

Heineken bjór verður ekki fáanlegur í Rússlandi í náinni framtíð.
Heineken bjór verður ekki fáanlegur í Rússlandi í náinni framtíð. Valdís Þórðardóttir

Nú hefur hollenski bjórframleiðandinn Heineken og Carlsberg í Danmörku bæst í hóp þeirra sem hætta sölu á varningi sínum í Rússlandi. Einnig hefur Universal Music Group ákveðið að sniðganga Rússa.

Heineken, sem er næststærsta bjórfyrirtæki heims, tilkynnti að þeir hygðust hætta framleiðslunni í Rússlandi og öllum auglýsingum og sölu innan landsins vegna aukinna stríðsátaka Rússa í Úkraínu.

1800 Rússar vinna við framleiðslu Heineken í Rússlandi, þar sem þeir framleiða innlenda bjórinn Zhigulevskoe og Oxota fyrir Rússlandsmarkað og eru þriðji stærsti bjórframleiðandi landsins. Framkvæmdastjóri Heineken, Dolf van den Brink, sagði í tilkynningu í dag að það væri sorgleg að fylgjast með hörmungum í Úkraínu. „Stríð rússneskra yfirvalda gegn Úkraínu er gjörsamlega óverjanlegt,“ bætti hann við.



Fjórði stærsti bjórframleiðandi heims, Carlsberg, tilkynnti einnig að þeir hygðust hætta framleiðslu og sölu í Rússlandi, en bættu við að Baltika Breweries bjórverksmiðjan myndi halda áfram starfsemi sem sér fyrirtæki til þess að tæplega níu þúsund starfsmenn fyrirtækisins gætu haldið vinnunni. „Þeir bera ekki ábyrgð á verkum stjórnvalda.“ Þeir bættu við að ákveðið hefði verið að allur ágóði frá Rússlandi myndi fara til hjálparsamtaka.

Fyrirtækin fylgja í fótspor fjölda annarra fyrirtækja sem hafa slitið á samskipti sín við Rússland eftir innrásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert