Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna fordæmdi stjórnvöld Hvíta-Rússlands í dag fyrir að hafa tekið fangann Viktor Pavlov af lífi í leynd. Nefndin var að kanna ásakanir mannsins um pyntingar í einangrun og önnur mannréttindabrot.
Nefndin sagði að yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hefðu verið beðin um að fresta aftöku mannsins meðan á rannsókn stóð, en landið er hið eina í Evrópu sem beitir dauðarefsingum.
Mikið hafði verið reynt að ná sambandi við yfirvöld í Minsk til að fá upplýsingar um stöðuna í máli mannsins og hvort væri búið að taka hann af lífi án vitundar þeirra.
„Nýlega fékk fjölskylda Viktors Pavlov að vita að hann hefði verið tekinn af lífi, en þau fengu engar upplýsingar um hvenær það gerðist né hvar hann væri grafinn,“ kemur fram í yfirlýsingu frá nefndinni.
Viktor Pavlov er fimmtándi fanginn sem er tekinn af lífi í Hvíta-Rússlandi frá árinu 2010. Hann var handtekinn 3. janúar 2019 ásakaður um morð og þjófnað og skrifaði undir játningu án þess að lögmaður væri viðstaddur og var dæmdur til dauða í júlí sama ár.
Hvíta-Rússland, sem nú liggur undir ámæli vegna stuðnings þeirra við innrás Rússa í Úkraínu, er sagt framkvæma aftökur fanga með byssuskoti í hnakkann, en dauðarefsingar fara fram leynilega og engar opinberar upplýsingar liggja fyrir um fjölda aftaka.
Þrátt fyrir aftökuna hyggst Mannréttindanefndin rannsaka málið og halda áfram að þrýsta á Hvíta-Rússland að hafa tiltækar upplýsingar um dauðarefsingar í landinu.