Frétti af andláti fjölskyldu sinnar á Twitter

Breitt var yfir látnu eftir árásina.
Breitt var yfir látnu eftir árásina. AFP/Daphne Rousseau

„Ekki hafa áhyggjur, ég mun koma mér burt,“ voru meðal síðustu setninga sem Tetíana Perebjínis sagði við eiginmann sinn Serhjí Perebjínis, degi áður en hún reyndi að flýja úkraínsku borgina Írpin ásamt tveimur börnum þeirra. Flótti sem heppnaðist ekki.

Hann var staddur í austurhluta Úkraínu að hlúa að móður sinni þegar fjölskylda hans var myrt á götum borgarinnar í árás Rússa. 

Myndir af þeim, þar sem móðir, sonur og dóttir liggja hreyfingarlaus ásamt sjálfboðaliða kirkjunnar sem hafði reynt að koma þeim til bjargar, hafa vakið mikinn óhug meðal heimsbyggðarinnar enda þykja þær afar lýsandi fyrir þær hörmungar sem nú geisa í landinu.

Fyrst var talið að sjálfboðaliðinn væri fjölskyldufaðirinn.

Í viðtali við New York Times segir Serhjí frá því hvernig hann kynntist eiginkonu sinni, aðdraganda árásarinnar og síðustu samskiptum sínum við fjölskylduna. 

Hjónin höfðu kynnst í menntaskóla en urðu ekki par fyrr en mörgum árum seinna þegar þau hittust aftur á dansgólfinu á næturklúbb. Árið 2001 gengu þau í það heilaga en þá bjuggu þau rétt fyrir utan Kænugarð, ásamt tveimur börnum þeirra Mikíta og Alísa, og hundunum Benz og Köku.

Eftir að innrás Rússa hófst undir lok síðasta mánaðar leið ekki á löngu þar til átökin og loftárásir færðust nær Kænugarði. Skömmu síðar voru sprengjur farnar að dynja á hverfi Perebjínis-fjölskyldunnar.

„Fyrirgefðu að ég get ekki varið þig“

Eitt kvöldið, eftir að sprengja hæfði byggingu fjölskyldunnar, ákvað Tetíana að nú væri tími til kominn að flýja borgina. Fjölskyldufaðirinn var eins og áður sagði fjarverandi vegna móður sinnar. Í tilfinningaþrungnu símtali sem hjónin áttu kvöldið áður en fjölskyldan lést lýsti hann yfir áhyggjum sínum af flóttanum.

„Ég sagði við hana: Fyrirgefðu að ég get ekki varið þig. [...] Ég reyndi að sjá um eina manneskju, en það þýðir að ég get ekki verndað þig,“ segir Perebjínis í samtali við blaðamann New York Times.

„Hún sagði: Ekki hafa áhyggjur, ég mun koma mér burt.“ 

Í ljósi þess sem fór segir hann nú mikilvægt að dauði fjölskyldu sinnar hafi verið festur á filmu. „Allur heimurinn þarf að vita hvað er að gerast hér.“

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem fjölskyldan hefur þurft að flýja stríðsátök en þau áttu heima í Donetsk-héraðinu í austurhluta Úkraínu. Héraðið er nú á valdi aðskilnaðarsinna sem eru hliðhollir Rússum eftir uppreisn árið 2014. Þurfti fjölskyldan þá að flýja átökin og fluttu þá til Kænugarðs til að hefja nýtt líf. 

Þegar Rússar hófu innrás í síðasta mánuði átti fjölskyldan erfitt með að trúa að átökin væru að endurtaka sig.

Var eftir vegna móður sinnar

Um leið og lá fyrir í hvað stefndi hafði Tatíana ásamt samstarfsfélögum sínum fengið þau skilaboð frá hugbúnaðarfyrirtækinu sem hún vann fyrir að þau ættu að flýja landið. Hafði fyrirtækið meira að segja leigt herbergi fyrir þau í Póllandi.

Hún taldi sig þó ekki geta flúið vegna móður sinnar sem þjáist af Alzheimer-sjúkdómnum en ekki var búið að tryggja brottför hennar úr landinu. Þá hafði hún einnig verið upptekin í vinnu við að útdeila þeim styrkjum sem fyrirtækið hafði útvegað starfsfólki á flótta.

Síðustu dagarnir áður en fjölskyldan lagði á flótta voru afar spennuþrungnir.

Að sögn Serhjí hafði sonur hans haldið sér vakandi á nóttunni og sofið á daginn til að geta vakið móður sína og systur þegar átök hófust. Færðu þau sig þá öll á ganginn í íbúðablokkinni, fjarri gluggum. 

Áður en þau loksins ákváðu að flýja hafði Tetíana rætt skipulagið í þaula við eiginmann sinn. Hún ásamt börnum sínum, móður og föður, ætluðu að leggja á flótta ásamt hópi á vegum kirkjunnar. Var stefnan sett á að halda í átt til Kænugarðs og þaðan myndu þau koma sér burt í öruggt skjól.

Þau keyrðu af stað í bílnum sínum en þurftu síðan að yfirgefa farartækið og fara fótgangandi í átt að brú sem hafði verið eyðilögð yfir á sem rann í gegnum Írpin. Á þeirri leið voru þau afar berskjölduð og þegar sprengjuárás Rússa hófst gátu þau ekki leitað sér skjóls.

Bar kennsl á farangur fjölskyldunnar

Eftir að hafa gert margar árangurslausar tilraunir að ná í fjölskyldu sína símleiðis fóru áhyggjur Serhjí vaxandi.

Skömmu eftir árásina varð hann síðan var við færslu á Twitter þar sem fram kom að fjölskylda hefði fallið í sprengjuárás á flóttaleið frá Irpín.

Stuttu síðar birtist ljósmynd af þeim föllnu þar sem fjölskyldufaðirinn bar kennsl á farangurinn sem lá við hlið þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert