Íbúar Maríupol berjast um matarbitann

Skortur er á mat, drykkjarvatni, hita og rafmagni í borginni …
Skortur er á mat, drykkjarvatni, hita og rafmagni í borginni Maríupol í Úkraínu. Ljósmynd/Aris Messinis

Örvænting hefur gripið um sig í borginni Maríupol í suðausturhluta Úkraínu þar sem sumir íbúar berjast bókstaflega um mat.

Frá þessu greindi Alþjóðahreyfing Rauða krossins í dag.

Sumir foreldrar eigi ekki mat fyrir börnin sín

„Fólk byrjaði að ráðast á hvort annað til að fá mat og eyðilagði bíl einhvers til þess að ná eldsneytinu úr honum,“ sagði Sasha Volkov, fulltrúi Alþjóðahreyfingar Rauða krossins í Maríupol.

„Margir eiga ekkert vatn til að drekka. Allar verslanir og apótek í borginni voru rænd fyrir fjórum til fimm dögum síðan. Sumir eiga enn einhvern mat en ég veit ekki hversu lengi hann endist. Margir segjast ekki eiga mat fyrir börnin sín.“

Hjálparstofnanir hafa sagt upplausnarástand ríkja í hafnarborginni þar sem skortur er nú á vatni, rafmagni og hita eftir árásir rússneskra hersveita síðastliðna viku.

Tilraunir til brottflutnings óbreyttra borgara úr borginni hafa mistekist og saka Úkraínumenn og Rússar hvorn annan um brot á vopnahléi.

Volkov sagði svartan markað hafa myndast þar sem íbúar borgarinnar geta fengið grænmeti en ekki kjöt, og að sjúkrabirgðir væru af skornum skammti.

Farin að veikjast í köldum sprengjuskýlunum

Þá leiti margir óbreyttir borgarar sér skjóls frá árásum Rússa í hrörlegum og köldum sprengjuskýlum.

„Fólk er þegar farið að veikjast af kuldanum. Það á hvergi athvarf,“ sagði Volkov.

Sumum starfsmönnum Alþjóðahreyfingar Rauða krossins tókst að safna saman matarbirgðum úr rústum í borginni, sem ætti að endast í nokkra daga.

„Mörg okkar eru farin að veikjast vegna kuldans og rakans. Við reynum að uppfylla hreinlætiskröfur en það er ekki alltaf hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert