Sem mótsvar við hörðum refsiaðgerðum Vesturlandanna vegna stríðsins í Úkraínu, hafa Rússar tilkynnt að búið sé að banna útflutning á ríflega 200 mismunandi vörum út þetta ár.
Mun útflutningsbannið meðal annars ná yfir landbúnaðarvélar, bifreiðar, tækni- og raftæki, auk tækja ætluð til samskipta og lækninga, að því er fram kemur í skipun sem Mikhaíl Mishustin forsætisráðherra Rússlands undirritaði.
Frá því að innrásin í Úkraínu hófst hafa Rússar sætt einum hörðustu refsiaðgerðum sem Vesturlöndin hafa gripið til. Ná aðgerðirnar m.a. yfir efnahagsþvinganir og takmörkun flugumferðar.
Á þriðjudag tilkynnti Joe Biden Bandaríkjaforseti svo bann á kaupum á eldsneyti frá Rússlandi. Ekki er vitað hvaða áhrif það mun hafa en Biden sagði þetta sterkt útspil.
„Stríð Pútíns hefur kostað Úkraínu ómældar þjáningar og tilgangslausan dauða saklausra borgara, kvenna, barna og allra. En Pútín virðist harðákveðinn að halda áfram þessum morðum, sama hvað það kostar,“ sagði Biden í sama ávarpi og hann tilkynnti bannið.