Bandarísk stjórnvöld segja nýjustu eldflaugaprófanir Norður-Kóreumanna benda til þess að þeir séu að þróa nýtt langdrægt eldflaugakerfi.
Frá þessu greindu bandarísk stjórnvöld í dag.
„Eftir vandlega greiningu hafa bandarísk stjórnvöld komist að þeirri niðurstöðu að tvær eldflaugaprófanir, sem Norður-Kóreumenn framkvæmdu 26. febrúar og 4. mars síðastliðinn, fólu í sér notkun á tiltölulega nýju, langdrægu eldflaugakerfi sem Norður-Kórea er með í þróun,“ sagði háttsettur bandarískur embættismaður á blaðamannafundi.
„Þetta er alvarleg stigmögnun af hálfu Norður-Kóreu og voru þessi eldflaugaskot líklegast hluti af prófun þeirra á þessu nýja langdræga eldflaugakerfi.“
Bætti hann því við að hugsanlega muni Norður-Kóreumenn reyna að sviðsetja hið endanlega eldflaugaskot með þessu kerfi sem geimskot.
Að sögn embættismannsins var nýja kerfið fyrst afhjúpað í skrúðgöngu kóreska verkamannaflokksins í október 2020 og svo aftur á varnarsýningu ári síðar.
Embættismaðurinn sagði Bandaríkin „harðlega fordæma prófanirnar“ og að þær væru „svívirðilegt brot á hinum ýmsu ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Auk þess sagði hann prófanirnar valda „óþarfa spennu“ og „hættu á raska öryggisstöðugleika á svæðinu“.
Matið segir hann hafa gert í náinni samvinnu við bandamenn Bandaríkjanna í Kóreu og Japan og að Bandaríkin hafi deilt upplýsingum sínum um málið með öðrum bandamönnum og samstarfsaðilum sínum, þar á meðal Sameinuðu þjóðunum.
Bætti hann því við að Joe Biden Bandaríkjaforseti væri enn opinn fyrir því að funda með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Herstjórn Bandaríkjahers á Indlands- og Kyrrahafi hafi sömuleiðis „fyrirskipað aukið eftirlit með njósnum og njósnasöfnun í Gulahafinu, auk þess að auka viðbúnað meðal eldflaugavarnarsveita á svæðinu.“
Búist er við því að fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna kynni á morgun „nýjar aðgerðir til að koma í veg fyrir að Norður-Kóreumenn fái aðgang að erlendum íhlutum og tækni sem geri þeim kleift að fylgja vopnaáætlunum sínum“, að því er embættismaðurinn greindi frá í samtali við fréttastofu BBC.