Úkraínski herinn berst í bökkum við að halda yfirráðum í borgunum Karkív og Chernihiv í norðri, og Severodonetsk í austri. Íbúar Chernihiv eru nú án vatns eftir að loftárás var gerð á vatnsleiðslukerfið. Það gæti tekið allt að fjóra tíma að laga skemmdirnar.
Leikskóli og fjölbýlishús urðu fyrir sprengingum í fyrstu loftárásum Rússa á borgina Dnípró. Að minnsta kosti einn hefur látið lífið. Mun þetta vera fyrsta árásin á borgina frá því að innrásin hófst. Þá var sömuleiðis gerð árás á borgina Lutsk sem hefur áður verið ósnert af hermönnum.
Rússneskar hersveitir mjakast sífellt nær Kænugarði, höfuðborg Úkraínu og gæti hún brátt verið umkringd. í gær sagði Vítalí Klitsjkó borgarstjóri Kænugarðs að um helmingur íbúa væri búinn að flýja borgina.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa á hverjum degi boðið fram þann kost að opna flóttaleiðir úr úkraínsku borgunum en ráðamenn í Úkraínu hafa hafnað þeim öllum þar sem lagt er upp með að leiðirnar endi annað hvort í Rússlandi eða Hvíta-Rússlandi.
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu segir rússneska skriðdreka hafa ráðist á vörubíla sem fluttu mat og lyf til þeirra sem eftir eru í borginni Maríupol. Hún hefur verið án vatns og rafmagns í 11 daga.
Sprengjur hafa dunið á íbúahverfum og segir borgarstjórinn að skotið sé á borgina á hálftíma fresti. Rússar segja nú árásina á barnaspítalann í borginni hafa verið sviðsetta af Úkraínumönnum.
Frá því að stríðið hófst hafa minnst 71 barn látið lífið og yfir 100 slasast. Á síðustu tveimur dögum hafa 100 þúsund flúið frá svæðum umhverfis Kænugarð, Sumy og Ísyum.
Alls hafa 2,3 milljónir Úkraínumanna flúið yfir landamærin frá því að innrásin hófst og hefur ríflega helmingur þeirra farið yfir til Póllands.