Rússar hófu innrás í Úkraínu fyrir 15 dögum. Í nótt réðust þeir inn á ný svæði með loftárásum á borgirnar Dnípró, Ívanó-Frankívsk og Lútsk. Árásin á Lútsk markar ákveðin tímamót þar sem Rússar hafa ekki áður ráðist á borg jafn vestarlega í landinu.
Rússar þrengja enn að Kænugarði og eru nú hersveitir þeirra í útjaðri borgarinnar, bæði norður og vestur af höfuðborgarinni. Úkraínski herinn segir að nokkur íbúðahverfi hafi orðið fyrir hörðum sprengjuárásum. Þrjár aðrar borgir í landinu eru jafnframt í herkví.
Staðfest hefur verið að þriðji háttsetti rússneski hershöfðinginn hafi verið felldur af Úkraínumönnum.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að ráðist hafi verið á trukka sem fluttu matvæli, lyf og önnur hjálpargögn til borgarinnar Maríupol í suðurhluta landsins, en ástandið í borginni er eitt það versta í stríðinu. Segir borgarstjóri Maríupol að stórskotaárásir séu gerðar á borgina á hverjum hálftíma og að um 1.200 manns hafi þegar látist. Borgin hefur verið án vatns og rafmagns í ellefu daga.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hélt neyðarfund í dag að beiðni rússneskra stjórnvalda. Tilefni fundarins voru ásakanir um mögulega framleiðslu efnavopna í Úkraínu.
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu hefur þó þvertekið fyrir það að verið sé að þróa efnavopn eða annars konar vopn sem gætu leitt til gjöreyðingar.
Ráðamenn í vestrænum ríkjum óttast nú að Rússar séu að beita hernaðarbragði þar sem þeir saka andstæðinga sína um að þróa sýkla- og efnavopn, svo þeir geti lagt grunn að notkun þeirra í Úkraínu. Hafa Rússar áður verið sakaðir um að gera þetta í Sýrland
Fylgst verður með gangi mála hér að neðan.