Stórskotárásir Rússa halda áfram á borgina Karkív í norðausturhluta Úkraínu. Þar býr Karine ásamt eiginmanni sínum, en þau ákváðu að flýja ekki þegar stríðið braust út. Karine er meðal þeirra sem leyfir okkur að heyra raddir almennra borgara með reglulegum dagbókarfærslum sínum um ástandið, upplifun sína og hvað sé efst í huga almennra borgara þegar stríð hefur brotist út í eigin landi.
Við heyrum einnig frá þeim Jaroslav sem býr í borgin Ódessu í suðurhluta landsins og hjónunum Sergei og Irínu í Lviv í vesturhluta landsins. Fyrsti dagur kærustu Jaroslavs í herþjónustu verður á morgun, en hann og félagar hans halda hjálparstarfi áfram í borginni.
Annars er árás Rússa á barnaspítala í Maríupol á miðvikudaginn ofarlega í huga fólks og tala bréfaritarar um stríðsglæpi og hryðjuverk. Þá telja þau að nístandi kuldi í Úkraínu muni koma í bakið á innrásarhernum.
Karine í Karkív
Rússar gerðu stórskotaárás í tuttugu og níu skipti á Karkív í nótt og þá sprengdu rússneskir hermenn einnig upp gasleiðslu sem liggur til borgarinnar. Þeir eru viljandi að reyna að eyðileggja alla innviði borgarinnar. Þá skutu þeir einnig eldflaugum á Nikolsky, nýju stóru verslunarmiðstöðina í miðborg Karkív. Sprengingarnar ómuðu hátt um allt, en eiginmaður minn svaf hávaðann reyndar af sér og heyrði ekkert. Ég tók hundinn okkar í fangið þar sem hún var mjög hrædd. Þrátt fyrir þetta var nóttin nokkuð róleg heilt yfir og við erum orðin nokkuð vön hávaða af sprengingum í fjarska.
Morguninn var kyrrlátur og ég fór í göngutúr með hundinn. Það er ískalt úti, en hitamælirinn sýndi -12°C. Frostið mun hjálpa okkur. Það kælir niður og tekur kraft úr rússnesku hermönnunum sem fá ekki skjól eða stuðning heimamanna.
Til að reyna að halda áttum gerði ég jógaæfingar í morgun. Svo kom nágranni okkar yfir og gaf okkur nammi, en það gerði hann í minningu móður sinnar sem lést. Það er hefð hér að ættingjar hins látna bjóði þeim sem minnast hans upp á eitthvað á níunda degi eftir andlát. Móðir hans var 83 ára og lést 3. Mars af hjartaáfalli á meðan á loftárásum Rússa stóð. Hún lést nokkrum dögum fyrir afmælið sitt. Nágranninn getur ekki enn grafið móður sína svo hún liggur nú í kjallara hússins þar sem hún bjó.
Rússar láta mismunandi gerðir sprengja falla á borgina, þá springa sumar þeirra en aðrar ekki. En þeir fljúga lágt yfir og með miklum hávaða þannig að það veldur miklum kvíða og hræðslu borgara.
Ég reyni að fylgjast með nýjustu fréttum og í dag sagði Lyudmila Denisova, yfirmaður mannréttindamála í Úkraínu, að 71 barn hefði látist í innrás Rússa og til viðbótar hefðu 100 slasast. Börn á barnaspítalanum í Karkív þurfa að dvelja í kjallaranum vegna sprenginganna.
Í gær frömdu Rússar stríðsglæpi gegn úkraínsku þjóðinni með að sprengja upp barnaspítala í borginni Maríupol þar sem þrír létust, þar á meðal eitt barn og 17 slösuðust. Utanríkisráðherra Rússlands laug svo að heimsbyggðinni og sagði að engar óléttar konur eða börn hefðu verið á spítalanum, bara þjóðernissinnar. Megi Rússland hljóta skömm fyrir – hryðjuverkaríki. Rússar eru að skapa mannúðarkrísu og reyna svo að kenna fórnarlömbunum um. Þetta var líka staðan árið 2014 þegar hvítir trukkar [innsk. blm: trukkar sem eiga eingöngu að flytja hjálpargögn] fluttu hergögn inn á Donetsk- og Luhansk-svæðin.
Yfir daginn var áfram stórskotasárás á borgina, en sem betur fer flugu flugvélarnar ekki yfir borgina í þetta skiptið. Herinn okkar er að ná að skjóta eitthvað af þeim niður.
Í kvöld hlustaði ég á guðsþjónustu á vegum rétttrúnaðarkirkjunnar í Úkraínu, en hún var send út frá klaustri heilags Mikaels í Kænugarði.
Sergei og Irína í Lviv
Fimmtándi dagur stríðsins. Það er erfitt að trúa því að við höfum búið við stríðsástand síðustu tvær vikur. Það er mjög erfitt að lesa fréttirnar um stríðsglæpina í Maríupol. Og svo getur enginn aðstoðað þetta folk, borgin er í herkví, það er engin opin leið fyrir íbúa út. Á hverjum degi deyr fjöldi fólks í borginni. Þetta er hræðilegt.
Ég trúi því að á næstu 2-3 vikum muni staðan breytast gríðarlega. Ég hef reynt að rifja upp öll stríð sem Rússland hefur áður hafið og fyrir utan seinni heimstyrjöldina finnst mér árangurinn ekki hafa verið mikill. Þar með ætti sigurinn að vera framundan fyrir okkur, en hver ætli kostnaðurinn verði? Efnahagurinn hefur hrunið þar sem árásirnar eru gerðar við landamærin, en önnur héruð lengra frá finna líka fyrir miklum áhrifum.
Fór í stutta göngu í dag. Það var mjög mjög kalt. Er samt ánægður með kuldann þar sem hann ætti að draga úr hvata rússneskra innrásarliða að gera árásir. Þeir hafa ekki aðstöðu þar sem þeir geta allir varið nóttinni við þægilegar aðstæður.
Staðan: Verð að athuga hvaða bækur ég á eftir að lesa. Þetta er besti tíminn fyrir lestur.
Jaroslav í Ódessu
Í dag fengum við fjölda hjólastóla fyrir börn sem og barnabílstóla. Þá sóttum við lyf til þeirra sem sögðust aflögu færir. Við vorum fram yfir klukkan sjö í kvöld að flokka og pakka hlutunum þannig að hægt sé að skutla þeim út. Ég sótti einnig öll gömlu fötin mín og kærastan mín ætlar að gera það sama á morgun. Hún er tannlæknir, en morgundagurinn verður fyrsti dagurinn hennar í herþjónustu. Þar sem hún er heilbrigðismenntuð var hún kvödd í herinn. Hún er núna að hjálpa okkur að flokka öll lyfin sem við fengum í dag og á morgun munum við fara yfir lista af fólki og hverjar þarfir hvers og eins eru.
Foreldrar mínir eru annars komnir til frænku minnar [innsk. blm: í Rúmeníu þangað sem þú flúðu]. Ég vona að pabbi muni ná að halda áfram með krabbameinsmeðferðina, en það var ekki mögulegt hér vegna aðstæðnanna.
Fólk er annars nokkuð rólegt og andrúmsloftið er enn friðsamt. Fólk gerir það sem það getur og reynir að brosa. Loftvarnaflauturnar fara af stað einu sinni eða tvisvar á dag, en enn sem komið er hefur ekki verið gerð árás, þökk sé hermönnum okkar.