Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hvatt Úkraínu til að farga öllum hættulegum sýklum sem er að finna á rannsóknarstofum víða um landið til að koma í veg fyrir að sýklafaraldur brjótist út í miðjum stríðsátökunum.
Frá þessu greindi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin í dag.
Stofnunin sagði verksvið hennar meðal annars vera að efla líföryggi (e. bio security) á rannsóknarstofum til að koma í veg fyrir að vírusar, bakteríur og aðrir sýklar leki út af þeim, hvort sem það er fyrir slysni eða af ásetningi.
„Sem hluti af þessari vinnu hefur WHO eindregið mælt með því að heilbrigðisráðuneytið í Úkraínu og aðrir ábyrgir aðilar fargi öllum hættulegum sýklum til að koma í veg fyrir mögulegan leka,“ að því er heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna greindi frá.
Í almennum ráðleggingum sínum um öryggi á rannsóknarstofum leggur stofnunin áherslu á áhættumiðað mat, að því er Tarik Jasarevic, talsmaður WHO, greindi frá á blaðamannafundi í Genf.
„Rannsóknarstofur ættu alltaf að meta stöðuna hverju sinni og farga hættulegum sýklum á öruggan hátt sé þörf á því, til þess að koma í veg fyrir leka,“ sagði Jasarevic.
Spurður sagðist hann ekki geta útlistað þær rannsóknarstofur sem staðsettar eru í Úkraínu, líföryggi þeirra né hvaða sýkla þær hefðu mögulega að geyma.
Þá gat hann heldur ekki sagt til um það hvort einhverjar þessara rannsóknarstofa væru staðsettar á þeim svæðum sem Rússar hafa annað hvort ráðist á eða hernumið.