Innrásin þróist ekki út í stríð NATO og Rússa

Jens Stoltenberg í viðtalinu við AFP-fréttastofuna.
Jens Stoltenberg í viðtalinu við AFP-fréttastofuna. AFP/STRINGER

Atlantshafsbandalagið (NATO) má ekki leyfa innrás Rússa í Úkraínu að þróast út í stríð á milli bandalagsins og Rússa, að sögn Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO.

„Við berum ábyrgð á því að koma í veg fyrir að þessi átök breiðist út yfir landamæri Úkraínu og verði að allsherjarstríði á milli Rússlands og NATO,“ sagði Stoltenberg í samtali við AFP.

Kort/mbl.is

Hann varaði einnig við því að lokun á lofthelgi yfir Úkraínu myndi „mjög líklega leiða til stríðs á milli NATO og Rússlands“ og valda „miklu meiri þjáningu, miklu fleiri dauðsföllum og aukinni eyðileggingu“.

Hann sagði að lokun á lofthelginni (e. no-fly zone) yfir Úkraínu þýddi að NATO yrði að eyðileggja loftvarnir Rússa, ekki bara í Úkraínu heldur einnig í kringum Hvíta-Rússland og Rússland.

Jens Stoltenberg og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er þeir heimsóttu …
Jens Stoltenberg og Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er þeir heimsóttu herstöð í Lettlandi fyrr í vikunni. AFP/Toms Norde

„Þetta þýðir að við þyrftum að vera tilbúin til að skjóta niður rússneskar flugvélar vegna þess að lokun á lofthelgi er ekki bara eitthvað sem þú lýsir yfir heldur verðurðu að framfylgja henni,“ bætti hann við.

Einnig sagði hann að þjálfun aðildarríkja NATO á þúsundum úkraínskra hermanna síðustu árin, ásamt auknum herbúnaði, hafi reynst „virkilega mikilvægt (fyrir úkraínskar hersveitir) í baráttunni gegn rússneskum hersveitum“.

Hann bætti þó við: „Það mikilvægasta af öllu er að Pútín forseti bindi enda á þetta tilgangslausa stríð.“

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP/KLIMENTYEV / SPUTNIK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert