Rússar ráðast enn á óbreytta borgara

Slökkvistarf við nú gerónýta skóverksmiðju í Dnípró í Úkraínu.
Slökkvistarf við nú gerónýta skóverksmiðju í Dnípró í Úkraínu. AFP/Emre Caylak

Rússar halda áfram að ráðast á óbreytta borgara þrátt fyrir gagnrýni um stríðsglæpi, meðal annars vegna sprengingar á barnaspítala í Mariupol í suðaustur Úkraínu á dögunum. Segja þeir sjálfir að um sviðsetningu Úkraínumanna sé að ræða. 

Heimili með stuðningi fyrir fatlaða í Oskil, þorpi nálægt úkraínsku borginni Karkív í norðausturhluta Úkraínu, varð fyrir skotárás Rússa sem eyðilagði einnig fimm önnur hús. Ekki er vitað um dauðsföll af völdum árásanna en 30 starfsmenn og 330 vistmenn stuðningsheimilisins voru í skjóli frá skothríðinni þegar árásin átti sér stað.

Í nótt varð Dnípró, borg miðsvæðis í Úkraínu, fyrir loftárásum í fyrsta skipti í stríðinu þar sem einn féll. Skóverksmiðja er í kjölfar árásanna gjörónýt á svæði nálægt efnaverksmiðju og gluggar sprungu í leikskóla. Hingað til hefur verið litið á borgina sem öruggt skjól frá átökunum.

Rússar hafna öllum ásökunum um stríðsglæpi í stríðinu við Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert