Slíta viðskiptatengsl við Rússland

Bandaríkin hyggjast slíta hefðbundnum viðskiptatengslum við Rússland.
Bandaríkin hyggjast slíta hefðbundnum viðskiptatengslum við Rússland. AFP

Bandaríkin og bandamenn þeirra hyggjast útiloka Rússland frá alþjóðaviðskiptum í refsingarskyni fyrir innrás Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta inn í Úkraínu.

Frá þessu greindi Joe Biden Bandaríkjaforseti í ávarpi sínu í Hvíta húsinu í dag.

Banna innflutning á ýmsum vörum frá Rússlandi

„Bandaríkin, bandamenn okkar og samstarfsaðilar munu halda áfram að auka efnahagslegan þrýsting á Pútín og einangra Rússland enn frekar á alþjóðavettvangi,“ sagði Biden og bætti því við að refsiaðgerðirnar hafi verið ákveðnar í samráði við bandamenn Atlantshafsbandalagsins, G7-ríkjanna og Evrópusambandsins.

Þá sagði Biden aðgerðirnar m.a. fela í sér innflutningsbann á sjávarafurðum, vodka og demöntum frá Rússlandi og útflutningsbann á bandarískum lúxusvörum til bæði Rússlands og Hvíta-Rússlands.

Bannið nái til að mynda til „tiltekinna rússneskra og hvítrússneskra auðjöfra og áhrifamanna víða um heiminn,“ að því er segir í yfirlýsingu frá viðskiptaráði Bandaríkjanna.

Bandaríkin munu ekki taka beinan þátt í stríðinu

Hét hann því einnig að Rússum yrði refsað harkalega beiti þeir efnavopnum í Úkraínu en nýlega greindi bandaríska leyniþjónustan frá því að Moskva væri mögulega að undirbúa slíka árás.

Auk þess útilokaði Biden möguleikann á beinni þáttöku Bandaríkjanna í stríðsátökunum í Úkraínu og varaði við því að bein afskipti NATO-ríkjanna gætu leitt til „þriðju heimsstyrjaldarinnar“.

„Við munum ekki berjast gegn Rússlandi í Úkraínu,“ sagði Biden í ávarpi sínu og vísaði þannig örvæntingafullu ákalli Kænugarðs um að NATO grípi inn í á bug.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert