Úkraínskur borgarstjóri handtekinn

Ivan Fedorov, borgarstjóri Melitopol í Úkraínu.
Ivan Fedorov, borgarstjóri Melitopol í Úkraínu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ivan Fedorov, borgarstjóri Melitopol í Úkraínu, sást á myndbandi vera leiddur af vopnuðum mönnum út úr stjórnarbyggingu í borginni í dag. Saksóknaraembættið í Lugansk-héraðinu, sem er á valdi rússneskra aðskilnaðarsinna, kveðst ætla að kæra hann fyrir hryðjuverk.

Frá þessu greinir fréttastofa CNN.

Er þetta í fyrsta sinn sem rússneskar hersveitir handtaka úkraínskan stjórnmálamann síðan Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn.

Samkvæmt tilkynningu á vefsíðu saksóknaraembættisins í Lugansk er Fedorov m.a. sakaður um að aðstoða og fjármagna hryðjuverkastarfsemi.

Hélt embættið því fram að Fedorov væri meðlimur „Hægri geirans“, þjóðernissinnaðs hernaðar- og stjórnmálahóps sem starfar í Úkraínu og er andvígur Rússum.

Sakar embættið „Hægri geirann“ um að hafa framið hryðjuverk gegn almennum borgurum á Donbas-svæðinu í austurhluta Úkraínu, án þess þó að fara út í smáatriði um hverskonar hryðjuverk um hafi verið að ræða.

Úkraínskir fjölmiðlar, sem vitna í samtöl við borgarstjórn Melitopol, hafa staðfest að maðurinn sem sést leiddur í burtu á myndbandinu sé Fedorov.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert