Raddir frá Úkraínu: Erfiðasta ákvörðun lífsins

Irína og Danílo munu í dag leggja af stað frá …
Irína og Danílo munu í dag leggja af stað frá Úkraínu og út fyrir landsteinana til að flýja stríðið. Sergei getur ekki farið með þeim, en karlmönnum er meinað að yfirgefa landið svo þeir geti tekið upp vopn og barist ef þörf er á.

Að þurfa að kveðja fjölskylduna og horfa á eftir eiginkonu og barni leggja upp í óvissuferðalag út fyrir landsteinana til að flýja stríð, en geta á sama tíma ekki komið með, er líklega eitthvað sem enginn vill þurfa að upplifa. Sergei og Irína þurftu að taka þessa ákvörðun í gær eftir að það varð líklegra að borgin þeirra yrði næst í röðinni þegar kæmi að loftárásum Rússa. 

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, hjón­un­um Ser­gei og Irínu í Lviv í vest­ur­hluta lands­ins og Karine í borginni Karkív í austuhluta landsins, en þau deila með mbl.is reglu­leg­um dag­bók­ar­færsl­um sín­um um ástandið, upp­lif­un sína og hvað er efst í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð hef­ur brot­ist út í eig­in landi.

Föstudagur 11. mars

Sergei og Irína í Lviv

Sextándi dagur stríðsins. Í dag tókum við ákvörðun sem er líklega sú erfiðasta sem við fjölskyldan höfum tekið í lífinu. Á morgun mun fjölskylda mín yfirgefa Lviv og flýja Úkraínu. Það er líklega tilgangslaust að reyna að útskýra hvernig mér líður þessa stundina. Það er óljóst hvenær ég mun sjá eiginkonu mína og barn aftur, en það sem skiptir mestu máli er að þau verða örugg.

Við höfðum fengið upplýsingar um að Lviv yrði líklegast næst í röðinni þegar kemur að loftárásum Rússa. Það var svo sem orðið viðbúið, en núna er ég ekki lengur hræddur við neitt. Sigurinn verður okkar og hlutir eins og loftárásir munu ekki brjóta okkur niður.

Staðan: Þreyttur á þessu kalda veðri.

Sergei og Irína með soninn Danílo sem er fimm mánaða. …
Sergei og Irína með soninn Danílo sem er fimm mánaða. Sergei verður nú eftir í Lviv meðan Irína og Danílo leggja á flótta.

Jaroslav í Ódessu

Í dag var ég í fríi frá sjálfboðastarfinu og var ég bara heima með kærustunni þannig að lítið er að frétta. Eitthvað um heimilisstörf og svo auðvitað að gefa kettinum að éta. Frekari fréttir á morgun.

Karine í Karkív

Nóttin var að mestu hljóðlát, þó að þessi lýsing gæti verið nokkuð misvísandi. Kannski erum við bara orðin svona vön sprengingum. Morguninn virkaði friðsæll, jafnvel þannig að það leit út fyrir að það væri ekki stríð í gangi. Dagurinn var bjartur en kaldur og ég gat farið út og gengið rólega með hundinn.

Á morgnana er það orðið föst venja að hafa samband við vini og fjölskyldu í gegnum síma, net eða með textaskilaboðum. Aðalskilaboðin eru: „Við erum á lífi.“

Karine reynir að fara daglega út að ganga með hundinn …
Karine reynir að fara daglega út að ganga með hundinn sinn Gleði (e. Joy). Ljósmynd/Karine

Ég var annars heima í dag á meðan maðurinn minn var upptekinn við ýmislegt. Hann fór meðal annars og keypti mat fyrir okkur, foreldra hans og fyrir nágrannana. Honum tókst að fá nánast allt sem okkur vantaði úr stórmarkaðinum, það var aðeins rúgmjöl sem vantaði. Ég baka venjulega eigið brauð úr rúgmjöli, en núna er orðið mjög erfitt að fá hveiti eða rúgmjöl.

Eins og venjulega fylgdist ég með fréttunum. Óvinurinn skaut á borgirnar Dnipro, Lutsk og Ivano-Frankivsk. Í héraðinu hér í kringum Karkív skutu Rússar á heimili með stuðningi fyrir fatlaða þar sem meira en 300 manns bjuggu. Fólk lést í árásinni og þá særðist líka fjöldi manns. Þetta er verra en hjá Nasistum í seinni heimstyrjöldinni! Borgarstjórinn í Karkív sagði að nú væru 400 heimili eyðilögð í borginni og mikill fjöldi án hitunar. Sem betur fer er enn hiti í íbúðinni okkar.

Yfirvöld í Rússlandi eru að ljúga að heimsbyggðinni að Úkraína sé að þróa efnavopn, kjarnavopn og lífefnavopn. Þetta sýnir að Rússar eru að undirbúa almenningsálitið áður en þeir nota efnavopn í Úkraínu, svipað og gerðist í Sýrlandi. Rússland hefur þegar, í fyrsta skipti í sögunni, ráðist að kjarnorkuveri. Það hefur ekki einu sinni verið þess konar hryðjuverkaárás. Þetta er stríð, þetta er stríð lyga gegn sannleikanum.

En það eru líka góðar fréttir. Kona sem hafði verið á barnaspítalanum í Maríupol [innsk. Blm: sem varð fyrir árás Rússa á miðvikudaginn] fæddi í gær stúlku sem fékk nafnið Verónika – stúlka sem mun færa okkur sigur. Það vill svo til að dóttir mín heitir einnig Verónika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert