Varar við „hruni“ Alþjóðageimstöðvarinnar

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Refsiaðgerðir ríkja Vesturlanda gegn Rússlandi gætu valdið hruni Alþjóðageimstöðvarinnar að sögn yfirmanni rússnesku geimstofnunarinnar Roscosmos. 

Dmitry Rogozin kallaði eftir því að refsiaðgerðum verði aflétt. 

Að sögn Rogozin gætu refsiaðgerðirnar valdið truflunum á verkefnum rússneskra geimfara sem þjónusta Alþjóðageimstöðinni. Afleiðingar þess gætu orðið að stöðin, sem er um 500 tonn, gæti „hrunið í sjóinn eða á land“ að sögn Rogozin. 

Lönd sem beita viðskiptaþvingunum „kolrugluð“

„Rússneski hluti geimstöðvarinnar tryggir það að sporbaugur hennar sé lagfærður að meðaltali ellefu sinnum á ári,“ sagði Rogozin, sem hefur áður lýst yfir stuðningi við innrás Rússa í Úkraínu.

Að sögn hans er þó ólíklegt að geimstöðin brotlendi í Rússlandi. Rogozin lýsti löndunum sem hafa beitt viðskiptaþvingunum gegn Rússum sem „kolrugluðum“.

NASA tilkynnti 1. mars að stofnunin væri að leita lausna til þess að halda geimstöðinni á sporbaug án hjálpar Rússa.

Geimurinn er nú nánast eini staðurinn þar sem Bandaríkin og Rússland eiga enn í samstarfi.

Roscosmos tilkynnti í byrjun mars að stofnunin myndi leggja áherslu á smíði nýrra hernaðargervihnatta þar sem Rússar eru sífellt einangraðri eftir innrásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert