Bretar fái greitt fyrir að hýsa flóttafólk

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur talað fyrir því að Bretland …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur talað fyrir því að Bretland skipi sér í fararbrodd ríkja þegar kemur að stuðningi við Úkraínu. AFP

Breska ríkið hyggst greiða þeim sem bjóða flóttafólki húsaskjól á heimilum sínum 350 pund, en það samsvarar tæplega sextíu þúsund íslenskum krónum. 

Er þetta hluti af átaki sem ber yfirskriftina „Heimili fyrir Úkraínu.“ Með því verður reglum á landamærum loks breytt þannig að Úkraínumenn sem ekki hafa tengingu við Bretland, eða fjölskyldu þar, fái landvistarleyfi.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur talað fyrir því að Bretland skipi sér í fararbrodd ríkja þegar kemur að stuðningi við Úkraínu. Ríkisstjórn hans hefur þó verið harðlega gagnrýnd undanfarið fyrir það hve örðugt hefur reynst að opna landamærin fyrir flóttafólki. 

Lágmarkskröfur og framvísun sakaskrár

Nú er verið að útbúa vefsíðu, sem verður tekin í gagnið í lok vikunnar. Þar mun fólk geta skráð þær eignir eða vistarverur sem það treystir sér til að bjóða undir flóttafólkið.

Til þess að fá skráningu þurfa eignirnar þó að uppfylla tilteknar lágmarkskröfur og þá verður einnig litið til sakaskrár þeirra sem bjóða þær fram. 

Ríkisstjórnin býst við því að þetta átak muni skila sér í húsaskjóli fyrir tugi þúsunda flóttamanna. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Styrkur til staðbundinna stjórnvalda

Staðbundin yfirvöld munu svo koma til með að fá tíu þúsund pund, eða 1,7 milljónir íslenskra króna, frá ríkinu fyrir hvern einstakling til þess að standa straum af opinberri þjónustu og öðrum tilfallandi kostnaðarliðum.

Þá verður viðbótarstyrkur veittur vegna barna á skólaaldri, til þess að greiða fyrir skólagöngu þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert