Rússar óska eftir aðstoð frá Kína

Í síðasta mánuði birtu leiðtogar Kína og Rússlands yfirlýsingu þess …
Í síðasta mánuði birtu leiðtogar Kína og Rússlands yfirlýsingu þess efnis að samstarf þeirra væri takmarkalaust. AFP

Rússland hefur óskað eftir aðstoð frá Kína við að útvega sér hergögn, vegna stríðsins í Úkraínu. 

Hvíta húsið óttast að verði Kína að þessari ósk, muni það koma til með að draga verulega úr áhrifum aðgerða vestrænna ríkja gegn Rússlandi. 

Financial Times hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum innan Hvíta hússins, en ekki fengust upplýsingar um hvers kyns hergögn um ræðir. Það er þó vísbending um að Rússar séu farnir að ganga á vopnaforða sinn. 

Kínverska sendiráðið í Washington vildi ekki tjá sig um málið. 

Varar við því að rétta Pútín hjálparhönd

Jake Sullivan, öryggisfulltrúi Bandaríkjanna, er á leið til Rómar þar sem hann mun á morgun  funda með Yang Jietchi, yfirmanni utanríkismála Kína.

Á þeim fundi hyggst Sullivan gera Jietchi grein fyrir því að hvers kyns aðgerðir til stuðnings Rússum, ýmist beinn stuðningur við hernaðaraðgerðir þeirra eða aðstoð við að komast hjá viðskiptaþvingunum, muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

Eftir innrás Rússa í Úkraínu hefur Kína viljað stilla sér upp sem hlutlausu ríki. Þannig hefur Kína til að mynda ekki viljað taka þátt í viðskiptaþvingunum, ekki viljað fordæma aðgerðirnar en þó ekki lýst yfir beinum stuðningi við þær. 

Í síðasta mánuði birtu leiðtogar Kína og Rússlands yfirlýsingu þess efnis að samstarf þeirra væri takmarkalaust. Bandaríkin óttast því að Xi Jinping, forseti Kína, hafi engan áhuga á því að setja þrýsting á Pútín. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert