Kínverjar sagðir tilbúnir að hjálpa Rússum

Yfirvöld í Kína hafa sýnt fram á vilja til að rétta Rússum hjálparhönd, eins og Rússar óskuðu eftir, vegna innrásarinnar í Úkraínu. Dagblaðið Financial times hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum, en stjórnvöld Bandaríkjanna munu nýverið hafa varað bandamenn sína við þessari þróun mála.

Rúss­land óskaði í gær eft­ir aðstoð frá Kína við að út­vega sér her­gögn. Ekki liggur fyrir hvort Kína sé nú þegar byrjað að veita Rússlandi umræddan stuðning eða hvort í þessu felist loforð um að hann verði veittur í náinni framtíð.

Þá er ekki ljóst á hvaða tímapunkti Kína gaf fyrst í skyn við Rússa að þeir væru tilbúnir til að veita aðstoð í hernaðaraðgerðunum. 

Áttu fund í dag

Á alþjóðlegum vettvangi kefur Kína viljað halda hlutlausri stöðu að nafninu til. Þannig hafa stjórnvöld ekki fordæmt aðgerðir Rússa eða tekið þátt í efnahagsþvingunum gegn þeim, en heldur ekki lýst yfir stuðningi við innrásina í Úkraínu.

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, átti fund í Róm í dag ásamt formanni kínversku utanríkismálanefndarinnar, Yang Jiechi. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu rétt í þessu segir að töluvert hafi verið rætt um stríð Rússlands gegn Úkraínu.

Frekari fregnir verða birtar hér að neðan um leið og þær berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert