Kona og nýfætt barn létust í Maríupol

Rússar hafa látið margar sprengjur falla á borgina Mariupol.
Rússar hafa látið margar sprengjur falla á borgina Mariupol. AFP

Kona og nýfætt barn hennar létust eftir sprengjuárás Rússa á sjúkrahús í úkraínsku borginni Maríupol.

Átakanlegt myndskeið og ljósmyndir sem voru teknar eftir árásina, sem var gerð í síðustu viku, sýna konuna liggja blóðuga á sjúkrabörum.

Að sögn AP-fréttastofunnar var hún flutt á annað sjúkrahús eftir árásina. Þar fæddi hún barnið eftir bráðakeisara á laugardaginn.

Þegar konan áttaði sig á að hún væri að missa barnið sitt eftir keisaraskurðinn öskraði hún: „Drepið mig núna!“

Eftir að barnið hafði látist einbeittu læknar sér að konunni en þeim tókst ekki að bjarga henni og lést hún 30 mínútum síðar.

Rússar héldu því fram að úkraínskir öfgasinnar hefðu tekið yfir sjúkrahúsið og notað sem bækistöðvar sínar og að engin starfsemi væri á sjúkrahúsinu. Úkraínskir embættismenn hafa vísað þessu á bug og saka Rússa um að hafa framið stríðsglæp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert