Raddir frá Úkraínu: Vinafólkið á flótta

Börn á flótta í Vinnitsíu fengu að njóta leiksýningar sem …
Börn á flótta í Vinnitsíu fengu að njóta leiksýningar sem byggðist á að bregða á leik með sápukúlur.

Vinafólk Karine hefur undanfarna daga lagt á flótta eitt af öðru frá bæði Karkív og öðrum borgum Úkraínu vegna innrásar Rússa í landið. Hún segir okkur nokkrar sögur sem sýna þann samhug sem er á meðal fólks í landinu og hvernig allir reyna að létta undir með öðrum á þessum erfiðu tímum. 

Þetta er fyrsti dagurinn þar sem Sergei er einn eftir að fjölskyldan hans flúði landið daginn áður og Jaroslav undirbýr stóran dag í útkeyrslu á vistum og öðru sem keyrt er út til eldra fólks, fatlaðra og annarra sem þurfa á aðstoð að halda í þessum aðstæðum.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei Lviv í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í austu­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is reglu­leg­um dag­bók­ar­færsl­um sín­um um ástandið, upp­lif­un sína og hvað er efst í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð hef­ur brot­ist út í eig­in landi.

Sunnudagur 13. mars

Karine í Karkív

Í dag er átjándi dagur innrásar Rússa. Vörn Úkraínu heldur áfram. Óvinurinn skýtur með stórskotaliði og sprengir upp úkraínskar borgir. Í dag varð vísindabókasafnið í Karkví, nefnt eftir Voldomír Korolenko, fyrir miklum skemmdum eftir stórskotaliðsárás Rússa. Þessi sögulega bygging var reist á árunum 1898-1901 og var hönnuð af þekktum arkitekt að nafni Alexei Beketov, en hann gaf alla vinnu sína við hönnunina sem gjöf til borgarinnar. Sprengingarnar eyðilögðu eða skemmdu meðal annars tvö bókaherbergi, aðalbygginguna og einnig stóran flygil sem var þar og tónskáldið Sergei Rachmaninoff hafði leikið á. Þetta syrgir mig mikið.

En það eru einnig góðar fréttir og í þetta skiptið er það af vinkonu minni sem er leikkona við héraðsleikhús Karkív sem nefnt er eftir Sjevsjenkó og hét áður Berezil leikhúsið. Vinkona mín lét í dag vita að hún væri komin til Leipzig í Þýskalandi, en hún þurfti að hýrast í köldum og rökum kjallara hér í mesta sprengjuregninu og fékk í kjölfarið lungnabólgu. Hún fór af stað vestur með lest án peninga og matar og ferðaðist í fjóra daga. Hún fékk bæði mat og lyf frá fólki um borð og loksins komst hún til dóttur sinnar sem býr og starfar í Þýskalandi sem sandlistamaður.

Það eru fleiri tengingar við þetta leikhús, eiginmaður æskuvinkonu minnar er bæði leikstjóri og leikari við leikhúsið. Þessi vinkona mín, eiginmaður hennar og yngsti sonur flúðu til borgarinnar Vinnitsíu. Annar sonur þeirra er svo ballettdansari við þjóðleikhúsið hér í Karkív. Þau vörðu fyrstu dögum stríðsins með öðrum starfsmönnum leikhússins í leikmuna- og fatageymslu leikhússins, en geymslan virkaði sem sprengjuskýli. Nú hafa þau komið sér fyrir á heimavist í Vinnitsíu, en á leiðinni þangað gistu þau meðal annars með öðru flóttafólki í bænahúsi. Ég fékk sent myndskeið frá þeim sem sýndi nýtt verk sem sjálfboðaliðar í Vinnitsíu fluttu fyrir börn sem voru á flótta, en leiksýningin er byggð upp með sápukúlum.

Í kvöld fékk ég einnig skilaboð frá annarri vinkonu minni sem býr í Irpin. Við höfðum ekki heyrt í henni í nokkra daga og vorum orðin áhyggjufull um afdrif þeirra. Sem betur fer höfðu þau náð að flýja borgina. Í fyrri innrás Rússa árið 2014 flúðu þau frá borginni Donetsk og bjuggu meðal annars í nokkra daga í Karkví. Nú eru þau svo aftur komin á flótta. En aðalatriðið er að þau eru á lífi.

 

 

Jaroslav í Ódessu

Í dag sagði ein eldri kona mér að stríðið myndi enda eftir níu dag. Ég trúi aldrei slíkum fullyrðingum en ég vona svo sannarlega að hún hafi rétt fyrir sér. Á morgun verður stór dagur hjá sjálfboðahópnum mínum, en við ætlum að koma aðstoð út til 80 manns á þessum eina degi, mögulega til fleiri. Það var einnig haft samband við kærustuna mína og hún beðin um að hún koma og aðstoðaða á dvalar- og hjúkrunarheimili í borginni.

Borgarstjórinn okkar upplýsti í dag að mannúðaraðstoð sem Frakkar sendu væri þegar komin til borgarinnar. Ég vona að þessar vistir muni tvöfalda getu okkar til að aðstoða þá sem hafa særst eða slasast. Auðvitað horfum við til allra jákvæðra frétta í þeirri von að þær raungerist.

Jaroslav býr í Ódessu við Svartahaf í suðurhluta Úkraínu. Í …
Jaroslav býr í Ódessu við Svartahaf í suðurhluta Úkraínu. Í gær var hann að undirbúa stóran dag í útkeyrslu með allskonar hjálpargögn.

 

Sergei í Lviv

Átjándi dagur stríðsins og fyrsti dagurinn í nýjum raunveruleika án fjölskyldunnar. Þetta verða erfiðir tímar, en ég mun komast í gegnum þetta. Mín vandamál eru ekki svo stórvægileg miðað við marga aðra hér í landi. Eins og ég hafði spáð var gerð loftárás á Lviv í dag. Mjög ánægður með að þau sem standi mér næst séu örugg. Nú vonar maður bara að Lviv verði ekki eyðilögð á næstu vikum.

Staðan: Hlustaði í dag á hljómsveitina The Doors í fyrsta skipti í langan tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka