Telur Rússa tilbúna í uppbyggilegar viðræður

Slökkviliðsmenn reyna að ráða niðurlögum elds í fjölbýlishúsi í Obolon, …
Slökkviliðsmenn reyna að ráða niðurlögum elds í fjölbýlishúsi í Obolon, úthverfi Kænugarðs, eftir loftárás Rússa. AFP

Úkraínumenn ætla að krefjast tafarlauss vopnahlés og að rússneskar hersveitir yfirgefi landið í fjórðu umferð samningaviðræðna sem fara fram í dag. Rúmar tvær vikur eru liðnar síðan bardagar hófust í Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa.

Úkraínski embættismaðurinn Ihor Zhovka sagði við BBC að afstaða Rússa sé uppbyggilegri núna en hún hefur verið.

„Í staðinn fyrir að setja okkur úrslitakosti eða að biðja Úkraínu um að gefast upp virðast þeir núna tilbúnir að hefja uppbyggilegar samningaviðræður,“ sagði hann.

Mikhailo Podolyak, aðalsamningamaður úkraínskra stjórnvalda, sagði vopnahlé lykilatriði í samningaviðræðunum. 

„Friður, tafarlaust vopnahlé og brotthvarf allra rússneskra hermanna. Eingöngu þegar þetta er í höfn getum við talað um samskipti landanna og pólitísk álitamál,“ sagði hann á Twitter. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert