Fordæma innrásina og krefjast vopnahlés

Leiðtogar JEF-ríkjanna, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands.
Leiðtogar JEF-ríkjanna, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands. AFP/Justin Tallis

Leiðtogar ríkja sem standa að Sameiginlegu viðbragðssveitinni (Jo­int Exped­iti­on­ary Force, JEF), undir forystu Bretlands, hvöttu í dag Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að samþykkja beiðni Úkraínu um tafarlaust vopnahlé til að koma í veg fyrir þá mannúðarkrísu sem ríkir vegna stríðsins.

Leiðtogar ríkjanna, sem samanstanda af Bretlandi, Danmörku, Eistlandi Finnlandi, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Hollandi, Noregi og Svíþjóð, komu saman til fundar í Lundúnum í dag og var markmið fundarins að undirstrika enn frekar skuldbindingu sveitarinnar við endurreisn friðar og öryggis í Evrópu.

„Við skorum á Rússa að innleiða og standa við tafarlaust vopnahlé til að stöðva þróun mannúðarkreppu og opna fyrir aðgang Úkraínumanna að mat, vatni og læknisaðstoð,“ segir í yfirlýsingu leiðtoganna.

Skýrt brot á fullveldi, frelsi og sjálfstæði Úkraínu

Leiðtogar JEF-ríkjanna fordæma hrottalega árás Pútíns á Úkraínu, landhelgi þess og íbúa, og segja hana skýrt brot á fullveldi, frelsi og sjálfstæði Úkraínu sem lýðræðislegs Evrópulands.

„Við þurfum að tryggja að slíkar aðgerðir verði áfram óásættanlegar og að engar aðrar þjóðir verði fórnarlömb slíkra ofbeldisfullra útþenslutilrauna,“ sagði í yfirlýsingu leiðtoganna og var þá verið að vísa til Eystrasaltsríkjanna.

„Í því skyni munum við tryggja að JEF-ríkin haldi áfram að gegna trúverðugu hlutverki við að leggja sitt af mörkum til varnar og fælingarmáttar á svæðinu, halda okkar löndum og okkar heimsálfu öruggum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert