Gjalda innrásina dýru verði

Kona bregst við afleiðingum rússneskrar sprengjuárásar á íbúðahverfi í norðvesturhluta …
Kona bregst við afleiðingum rússneskrar sprengjuárásar á íbúðahverfi í norðvesturhluta Kænugarðs. Tveir létust í þeirri árás í gær, en áfram rigndi sprengjum yfir fleiri borgir Úkraínu. ARIS MESSINIS

Nærri þrjár milljónir Úkraínumanna hafa flúið heimaland sitt eftir að Rússar réðust inn í landið þann 24. febrúar.

Rússnesk stjórnvöld hafa sent Kínverjum óskalista þar sem þeir fara fram á ýmsar bjargir á meðan þeir heyja stríð við Úkraínumenn. Loftvarnaflaugar, drónar, brynvarin ökutæki, flutningabifreiðar, njósnatengdur búnaður og matarpakkar eru meðal þess sem Rússar óska sér frá kínverskum stjórnvöldum.

Ekki þykir þó líklegt að Kínverjar geti orðið við beiðni Rússa eins og hún leggur sig heldur útvegi þeim jafnvel einungis mat.

Þannig geti Kínverjar áfram siglt milli skers og báru með því að veita Rússum aðstoð án þess að útvega þeim hrein og klár vopn.

Óskar Hallgrímsson ljósmyndari, sem býr í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, sagði þriggja mínútna langar ákafar skothríðir hafa brotist út með hléum í norðausturhluta borgarinnar í gærkvöldi. Þá hefðu viðvörunarflautur farið í gang í fyrsta skipti í langan tíma.

„Ég heyrði í rosalegum byssubardaga, búið að þagna aftur núna. Það gæti verið að einhver hafi verið að reyna að komast í gegnum eftirlitsstöðvarnar sem búið er að setja upp úti um alla borg,“ sagði hann í samtali við mbl.is í gærkvöldi.

Katrín á fundi í Bretlandi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun funda í Bretlandi í dag með leiðtogum ríkja sem mynda Sameiginlegu viðbragðssveitina (Joint Expeditionary Force). Þar verður rætt um ástandið í Úkraínu og frekari stuðning JEF-ríkjanna við stjórnvöld og almenning í Úkraínu. Einnig verður rætt um stöðu öryggis- og varnarmála í Evrópu, þ.m.t. í Eystrarsaltinu og Norður-Atlantshafi, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Tæpt ár er liðið frá því Íslendingar urðu tíunda þjóðin í þessari viðbragðssveit sem Bretar leiða.

Þá hófst ein stærsta heræfing Atlantshafsbandalagsins, frá lokum kalda stríðsins, í gær undir merkjum Cold Response en í henni taka um 35 þúsund hermenn þátt, frá 28 ríkjum. Hún hefur verið á dagskrá í og við Noreg í mars og apríl.

Tvær og hálf vika er nú liðin frá því Rússar hófu innrás í Úkraínu. Flestir hefðu búist við því að hersveitir þeirra hefðu hertekið stærstu borgirnar á örfáum dögum en það hefur ekki gerst. Þess í stað hefur sókn þeirra fest sig í foraði og skriðdrekar orðið bæði rafmagns- og eldsneytislausir á miðri leið.

Nokkrar skýringar hafa verið uppi um gengi Rússa í stríðinu, meðal annars slæmt skipulag og firra í áætlanagerð, veðuraðstæður og síðast en ekki síst þrautseigja Úkraínumanna í að verja heimaland sitt. Enn eru þó margir sérfræðingar á því að Rússum muni takast að leggja Úkraínu undir sig. Sá sigur mun þó líklegast verða þeim afar dýr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert