Megi ekki vera háð rússneskri orku

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir vestræn ríki ekki mega vera háð rússneskri orku, sem geri Vladimír Pútín Rússlandsforseta kleift að „kúga heiminn“.

Leiðtogar vesturlandanna gerðu „hræðileg mistök“ þegar þeir leyfðu Pútín og rússneska hernum að „komast upp með“ að hertaka Krímskagann árið 2014 og urðu þannig háðari rússneskri orku, skrifaði Johnson í Daily Telegraph.

Pútín muni gera allt til að misnota stöðu sína

„Þegar hann [Pútín] hóf svo loks „grimmilegt“ stríð sitt í Úkraínu, vissi hann að heimurinn myndi eiga mjög erfitt með að refsa honum“, bætti hann við.

„Heimurinn getur ekki sætt þessari sífelldu fjárkúgun.“

Ummælin lét Johnson falla fyrir heimsókn sína til Sádí-Arabíu þar sem hann hyggst funda með krónprinsinum Mohammed bin Salman um himinháar hækkanir sem orðið hafa á eldsneytisverði í heiminum í kjölfar innrásar Rússlands inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn.

„Á meðan Vesturlönd eru efnahagslega háð Pútín mun hann gera allt sem hann getur til að misnota ósjálfstæði,“ skrifaði hann.

„Ef heimurinn hættir að vera háður rússneskri olíu og gasi, getum við svelt hann [Pútín] af fjármagni, eyðilagt hernaðarstefnu hans og dregið úr valdi hans.

Bandaríkin hafa nú þegar tilkynnt bann við innflutningi á rússneskri olíu. Bretland mun gera slíkt hið sama og hefur ESB samþykkt að gera það eins fljótt og auðið er.“

„Afar erfitt“ að venja sig af rússneskri orku

Viðurkenndi Johnson þó að það yrði „afar erfitt“ fyrir vestræn ríki að venja sig af rússneskri orku.

Talsmaður Johnson sagði fyrir heimsókn hans til Sádí-Arabíu að breska ríkisstjórnin „vilji draga úr sveiflum og lækka verð fyrir bresk fyrirtæki“.

Síðar í þessum mánuði mun breska ríkisstjórnin birta orkuöryggisstefnu sína og sagði Johnson að þörf væri á auknum fjárfestingum í endurnýjanlegum orkugjöfum, þar á meðal vindorkuverum á hafi úti sem og sólarorku.

Þá sagði hann þörf á að leggja aukna áherslu á kjarnorkuframleiðslu, þar á meðal með notkun „smærri eininga af kjarnaofnum sem og stærri rafstöðvum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert