Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að almenningur í landinu reiði sig frekar á stuðning alþjóðlegra stuðningsmanna heldur en Atlantshafsbandalagið, NATO.
„Auðvitað er Úkraína ekki aðili að NATO, við áttum okkur á því. Við höfum heyrt í mörg ár að dyrnar séu opnar en við höfum einnig heyrt að við getum ekki farið inn um þessar dyr,“ sagði Selenskí.
Hann sagði að aðrar þjóðir sem eiga landamæri að Rússlandi eigi að hugsa um „sjálfstæða möguleika til varna“ án þess að hugsa um NATO, að sögn BBC.
Selenskí sagði að sendingar, þar á meðal vopn, frá Bretlandi og öðrum þjóðum væru nýttar til hins ýtrasta. „Magnið sem við fáum í hverri viku er venjulega notað innan 20 klukkustunda.“
Forsetinn fagnaði refsiaðgerðum Vesturlanda en sagði að þær dugi ekki til að stöðva innrás Rússa. Hann óskaði eftir algjöru viðskiptabanni gagnvart Rússum og gagnrýndi fyrirtæki fyrir að halda áfram viðskiptum sínum við þá.