Úkraínsk yfirvöld hafa hafnað hugmyndum Rússa um að landið taki upp hlutleysi að hætti Austurríkis og Svíþjóðar, eins og yfirvöld í Kreml nefndu í morgun.
„Þetta er til umræðu og hægt að líta á þetta sem ákveðna málamiðlun,“ sagði Dmitrí Peskov talsmaður rússneskra stjórnvalda, um málið.
Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússa sagði einnig í morgun að ákveðin von væri um málamiðlun við samningaborðið.
Mikhaíló Podóljak, háttsettur samningamaður Úkraínu og aðstoðarmaður forsetans, sagði hlutleysi ekki koma til greina nú þegar landið ætti í stríði við Rússa.