Kallaði Pútín stríðsglæpamann

Joe Biden á blaðamannafundi í dag.
Joe Biden á blaðamannafundi í dag. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseta stríðsglæpamann á blaðamannafundi í dag.

„Mér finnst hann vera stríðsglæpamaður,“ sagði Biden við blaðamenn á fundinum.

Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, tjáði sig um ummælin og sagði hún Biden tala „af öllu sínu hjarta“ eftir að hafa séð myndefni frá stríðinu í sjónvarpinu.

Lýsti Psaki stríðinu sem „barbarískum aðgerðum hrottalegs einræðisherra“.

Almennir borgarar láta lífið

Innrás Rússa í Úkraínu hefur nú staðið yfir í þrjár vikur og fleiri en þrjár milljónir Úkraínumanna hafa flúið heimili sín.

Árásir Rússa hafa í auknum mæli beinst að almennum borgurum en um 500 óbreyttir borgarar hið minnsta hafa látist í borginni Karkív auk þess sem ástandið í borginni Maríupol versnar hratt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert