„Mikið hata ég þetta „fyrir stríð“ hugtak“

Sergei og Irína með soninn Danílo sem er fimm mánaða. …
Sergei og Irína með soninn Danílo sem er fimm mánaða. Irína flúði með Danílo frá Úkraínu um helgina og er Sergei nú einn eftir í Lviv.

Sergei sér fram á að starfsemi á vinnustaðnum hans muni mögulega hefjast að nýju á næstunni, en fjárhagsstaðan er eitthvað sem fer versnandi í núverandi ástandi með stríðið í gangi. Jaroslav og félagar hans hafa undanfarna daga verið á fullu í undirbúningi og útdeilingu á nauðsynjum og vistum fyrir þá sem þurfa aðstoð í Ódessu, auk þess sem þau láta ekki sitt eftir liggja þegar kemur að dýrunum. Á meðan halda linnulausar árásir áfram á Karkív þar sem Karine býr ásamt eiginmanni sínum.

Við höld­um áfram að heyra frá þeim Jaroslav í borg­inni Ódessa í suður­hluta lands­ins, Ser­gei Lviv í vest­ur­hluta lands­ins og Kar­ine í borg­inni Karkív í austu­hluta lands­ins, en þau deila með mbl.is reglu­leg­um dag­bók­ar­færsl­um sín­um um ástandið, upp­lif­un sína og hvað er efst í huga al­mennra borg­ara eft­ir að stríð hef­ur brot­ist út í eig­in landi.

Þriðjudagur 15. mars

Sergei í Lviv

Tuttugasti dagur stríðsins. Ég fór í dag út í fyrsta skipti í þrjá daga og vorið er loksins að koma. Ég náði samt ekki að ganga lengi áður en loftvarnarflauturnar eyðilögðu öll áform mín. Til helvítis með þá!

Samkvæmt fréttum hafa hermennirnir okkar náð talsverðum árangri í baráttunni við Rússa og ég vona sannarlega að það sé satt. Eiginkona mín og sonur hafa það mjög gott eftir að hafa náð að flýja landið og þau senda mér skemmtilegar myndir og hringja í mig á hverjum degi. Ég reyni að hugsa ekki of mikið um það hversu langt er þangað til ég fæ að sjá þau aftur.

Fyrirtækið sem ég vinn hjá er að leita leiða til að koma starfsemi sinni aftur af stað, þannig að mögulega fer ég að vinna aftur fljótlega. Ég vona það innilega því annars þarf ég að fara að huga að því hvernig ég get aflað mér peninga ef stríðið heldur svona áfram. Það er hins vegar alveg tilgangslaust að reyna að gera einhver plön núna, í mesta falli horfir maður út vikuna. Þetta fer allt einhvern veginn.

Staðan: Drekk Dr. Pepper og reyni að rifja upp góðar minningar frá því fyrir stríð. Mikið hata ég þetta „fyrir stríð“ hugtak.

Jaroslav í Ódessu

Síðustu dagar hafa verið mjög árangursríkir í sjálfboðastarfinu sem við erum að vinna. Við söfnuðum fyrst peningum og fórum svo og keyptum næsta dag mat, lyf og vistir. Á þriðja deginum slógum við svo þrjár kúlur í einu höggi.

Fyrsta og mikilvægasta verkefnið var að fara með mat og lyf til stofnunar sem aðstoðar gamalt fólk sem býr eitt. Við náðum með þessu að sinna grunnþörfum meira en áttatíu manns, þannig að þetta verður að teljast mjög árangursríkt skref fyrir okkar litla borgaralega og óformlega hjálparstarf.

Jaroslav býr í Ódessu við Svartahaf í suðurhluta Úkraínu. Síðustu …
Jaroslav býr í Ódessu við Svartahaf í suðurhluta Úkraínu. Síðustu dagar hafa verið annasamir í sjálfboðastarfinu, en árangurinn hefur líka verið talsverður.

 

Næsta verkefni var svo að fara með fóður á gamlan en sögulegan stað hér í borginni, skeiðbrautina (e. hippodrome), en þar er fjöldi hesta. Ég hafði keyrt þarna fram hjá næstum á hverjum degi í mörg ár, en þetta var í fyrsta skiptið sem ég kom þangað.

Í þriðja lagi fórum við með fóður sem var sérstaklega ætlað þvottabjörnum í dýragarðinum. Óvænt þá beit einn þvottabjörninn mig, en höndin á mér er samt í lagi og yfirdýravörðurinn sagði að allir þvottabirnirnir væru reglulega athugaðir og væru með bóluefnaskírteini og því þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur af því að fá einhvera pest.

Það gleður mig á hverjum degi að sjá öll þessi bros og samhug þegar fólk vinnur sem eitt teymi!

Karine í Karkív

Við erum á lífi. Í dag héldu stórskotaliðsárásir áfram á Karkív. Það virðist samt vera að ákafi árásanna sé aðeins minni í dag en í gær. Það er samt bara tilfinning hjá mér.

Í dag sagði borgarstjóri Karkív, Igor Terekhov, við innlenda fréttastofu að rússneski herinn hefði skotið 65 sinnum á borgina á síðasta sólarhring. Tveimur eldflaugum var skotið á miðbæinn og Rússar halda áfram að ráðast á borgina og úthverfi hennar með loftárásum og öðrum sprengjum þannig að heilu hverfin eru eyðilögð. Úkraínski herinn berst þó hetjulega áfram og hefur náð að halda aftur af framgöngu Rússa.

Borgarstjórinn sagði einnig að óvinaherinn væri að eyðileggja innviði borgarinnar. 48 skólar hafa verið gjöreyðilagðir og leikskólar, heilbrigðisstofnanir og stjórnarbyggingar hafa verið skotmörk sprengjuárása.

Í gær skutu þeir jafnvel á fæðingaheimili, en borgarstjórinn sagði að gert hafði verið ráð fyrir því og allar mæður hefðu áður verið fluttar á brott.

Í raun er þetta ekkert annað en þjóðarmorð gegn úkraínskum borgurum og sprengju hefur rignt af miskunnarleysi yfir Karkív síðan stríði hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert