Rússar hafi sprengt skjólstað hundraða borgara

Þessari mynd deilir Dmítró Kúleba af vettvangi.
Þessari mynd deilir Dmítró Kúleba af vettvangi.

Rússneski herinn gerði umfangsmikla sprengjuárás á leikhús í Maríupol í dag, þar sem hundruð saklausra borgara höfðu fundið sér skjól.

Þetta fullyrðir úkraínski utanríkisráðherrann Dmítró Kúleba og bætir við að byggingin sé gjöreyðilögð. Um sé að ræða enn einn stríðsglæpinn í hafnarborginni.

Serhjí Orlov, aðstoðarborgarstjóri í Maríupol, segir 1.000 til 1.200 manns hafa verið í leikhúsinu þegar árásin var gerð.

„Bjargið Maríupol“

Rússar hafa setið um borgina í rúmlega tvær vikur og hefur umsátrið og sprengjuárásir dregið mikinn fjölda íbúa til dauða.

„Rússar gætu ekki ekki hafa vitað að þetta væri skýli fyrir borgara. Bjargið Maríupol. Stöðvið rússneska stríðsglæpamenn,“ segir Kúleba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka