Leikhúsið sem hersveitir Rússa sprengdu og gjöreyðilögðu í árás á borgina Maríupol í dag, var merkt í bak og fyrir á rússnesku með orðinu „Börn“.
Þetta sýna gervihnattamyndir en úkraínska þingið er á meðal þeirra sem vakið hafa athygli á þessu.
Yet this did not stop the occupiers, who fired an airstrike on the theatre...#StopRussia #StopPutin
— Verkhovna Rada of Ukraine (@ua_parliament) March 16, 2022
Serhjí Orlov, aðstoðarborgarstjóri í Maríupol, sagðist fyrr í dag telja að 1.000 til 1.200 manns hefðu verið í leikhúsinu þegar árásin var gerð.
Rússar hafa setið um borgina í rúmlega tvær vikur og hefur umsátrið og sprengjuárásir dregið mikinn fjölda íbúa til dauða.
„Rússar gætu ekki ekki hafa vitað að þetta væri skýli fyrir borgara. Bjargið Maríupol. Stöðvið rússneska stríðsglæpamenn,“ sagði úkraínski utanríkisráðherrann Dmítró Kúleba.
Skömmu eftir að ljóst varð að leikhúsið hefði verið sprengt hélt Joe Biden Bandaríkjaforseti blaðamannafund. Lofaði hann þar að veita Úkraínumönnum frekari varnarbúnað, að andvirði eins milljarðs bandaríkjadala.
Þá sagði hann í svari við spurningu blaðamanns að Vladimír Pútín Rússlandsforseti væri stríðsglæpamaður.