Sprengda byggingin var merkt börnum

Þessari gervihnattamynd náði fyrirtækið Maxar á mánudag. Sjá má kyrillíska …
Þessari gervihnattamynd náði fyrirtækið Maxar á mánudag. Sjá má kyrillíska letrið fyrir framan og aftan bygginguna. AFP

Leikhúsið sem hersveitir Rússa sprengdu og gjöreyðilögðu í árás á borgina Maríupol í dag, var merkt í bak og fyrir á rússnesku með orðinu „Börn“.

Þetta sýna gervihnattamyndir en úkraínska þingið er á meðal þeirra sem vakið hafa athygli á þessu.

1.000 til 1.200 manns

Ser­hjí Or­lov, aðstoðar­borg­ar­stjóri í Maríu­pol, sagðist fyrr í dag telja að 1.000 til 1.200 manns hefðu verið í leik­hús­inu þegar árás­in var gerð.

Rúss­ar hafa setið um borg­ina í rúm­lega tvær vik­ur og hef­ur umsátrið og sprengju­árás­ir dregið mik­inn fjölda íbúa til dauða.

„Rúss­ar gætu ekki ekki hafa vitað að þetta væri skýli fyr­ir borg­ara. Bjargið Maríu­pol. Stöðvið rúss­neska stríðsglæpa­menn,“ sagði úkraínski ut­an­rík­is­ráðherr­ann Dmítró Kúleba.

Lofaði frekari styrk

Skömmu eftir að ljóst varð að leikhúsið hefði verið sprengt hélt Joe Biden Bandaríkjaforseti blaðamannafund. Lofaði hann þar að veita Úkraínumönnum frekari varnarbúnað, að andvirði eins milljarðs bandaríkjadala.

Þá sagði hann í svari við spurningu blaðamanns að Vladimír Pútín Rússlandsforseti væri stríðsglæpamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert