Athygli umheimsins var vakin þegar ritstjórinn Marína Ovsjanníkova stökk inn í beina útsendingu fréttatíma rússneska ríkissjónvarpsins á mánudag með mótmælaskilti þar sem hún hallmælti stríðinu í Úkraínu og bað áhorfendur að trúa ekki áróðrinum frá Kreml.
Samkvæmt umfjöllun BBC hefur atvikið varpað kastljósi á uppsagnir fréttamanna stöðvarinnar undanfarna daga.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur þakkað Marínu fyrir mótmælin og hvatt annað fjölmiðlafólk að segja upp störfum. Hann varar við því að blaðamenn, sem eiga að gegna hlutverki fjórða valdsins, eigi á hættu refsingar og alþjóðleg dómsmál ef þeir réttlæti stríðsglæpi.
Nú þegar hafa nokkrir helstu stuðningsmanna Vladimír Pútín sætt refsiaðgerðum, eins og Vladimír Solóvjov þáttastjórnandi á Rossiya-1 og Margaríta Símónían, sem hefur sagt þá Rússa sem skammast sín fyrir þjóðernið í dag, ekki vera alvöru Rússa.
Þrír áberandi blaðamenn hafa hætt störfum undanfarna daga. Kollegi Marínu Ovsjanníkova, Sjanna Agalakóva, hætti sem fréttaritari í Evrópu hjá Channel One og Lilía Gildejeva, sem hefur lesið fréttir hjá NTV sjónvarpsstöðinni frá 2006 hætti og einnig Vadim Glúsker sem hefur unnið hjá sömu stöð í 30 ár.
Einnig eru sögusagnir um að blaðamenn séu á leiðinni út hjá ríkissjónvarpsstöðinni VGTRK.
Blaðamaðurinn Róman Súper sagði að fjöldauppsagnir stæðu fyrir dyrum hjá dagblaðinu Vesti, en það hefur ekki verið staðfest. Sjónvarpsmaðurinn Sergei Brilév sagði fregnir að sinni uppsögn ekki réttar, því hann hefði verið í vinnuferð í meira en viku.
Áður hafði talsverður fjöldi blaðamanna Russia Today hætt störfum, og þekktust er þar María Baronóva, fyrrverandi ritstjóri, en hún hafði í samtali við BBC sagt að Pútín væri búinn að eyðileggja bæði orðspor og efnahag Rússlands.