Lík barnanna liggja öll hér. Fleygt ofan í þennan þrönga skurð sem grafinn var í flýti ofan í frosna jörðu Maríupol, undir dynjandi takti sprengjuárása.
Kírill, átján mánaða gamall, en höfuðsár hans eftir sprengjubrot reyndist litla ungbarnslíkamanum um megn.
„Af hverju? Af hverju? Af hverju?“ hafði móðir Kírils, Marína Jatskó, spurt á gangi sjúkrahússins þann 4. mars, er læknar reyndu að bjarga honum.
Þarna liggur einnig Ílija, sextán ára gömul, en fætur hennar voru sprengdir í árás í miðjum fótboltaleik á skólavelli.
Svo er það telpan, ekki eldri en sex ára, sem klæddist náttfötum skreyttum einhyrningum, sem var á meðal fyrstu barnanna í Maríupol til að láta lífið undan rússneskri sprengjuárás.
Líkum barnanna er staflað saman ásamt tugum annarra í þessari fjöldagröf við útjaðar borgarinnar.
Karlmaður hulinn skærbláum dúk, sem haldið er niðri með grjóti við molnandi götukantinn. Kona vafin í rauð og gullin rúmföt, ökklar hennar snyrtilega bundnir með bút af hvítu klæði.
Líkunum er fleygt í skurðinn eins fljótt og fólk má vera að. Því minni tími sem þau verja undir berum himni, þeim mun meiri líkur á að þau lifi af.
Á þessum orðum hér að ofan hefst ítarleg umfjöllun nokkurra blaðamanna innan þessarar úkraínsku hafnarborgar við Asovshaf, sem birtist í dag.
Umfjöllunin hefur vakið mikla athygli, ekki síst fyrir þær sakir að fáar fregnir og fréttamyndir hafa borist frá Maríupol síðan Rússar hófu að sitja um borgina.
Hér, á vef AP-fréttastofunnar, má lesa hana í heild sinni.
Lík fleiri barna kunna að fylgja á eftir hinum í fjöldagröfina, eftir sprengjuárás Rússa fyrr í dag.