Enn beðið fregna eftir árásina á skjólstaðinn

Á torgunum við hlið leikhússins má sjá orðin „Börn“ skrifuð …
Á torgunum við hlið leikhússins má sjá orðin „Börn“ skrifuð á rússnesku. AFP/Maxar Technologies

Enn hafa engar fregnir borist af mannfallinu eftir umfangsmikla sprengjuárás Rússa á leikhúsið í hafnarborginni Maríupol í gær, þar sem úkraínsk yfirvöld segja hundruð kvenna og barna hafa leitað skjóls.

Serhjí Taruta, úkraínskur þingmaður, segir að einhverjum fórnarlömbum hafi tekist að koma sér út úr sprengiskýlinu í kjallara leikhússins. Lítið er þó vitað um örlög þeirra sem eftir eru. 

Í byggingunni, sem er nú gjöreyðilögð, segir Serhjí Orlov, aðstoðarborgarstjóri Maríupol, að 1.000 til 1.200 manns hafa verið þegar árásin var gerð.

Vöruðu Rússa við því að börn væru inni

Á gervihnattamyndum sem úkraínska þingið hefur deilt á Twitter má sjá að búið var að skrifa orðið „Börn“ á rússnesku við hlið leikhússins í stórum stöfum svo hægt er að lesa þau úr mikilli fjarlægð.

„Samt sem áður stöðvaði þetta ekki hernámsmennina sem skutu loftárás á leikhúsið,“ segir í tísti úkraínska þingsins.

Hafa setið um borgina

Rússar hafa undanfarna daga og vikur setið um hafnarborgina og hefur sprengjum rignt yfir íbúðahverfi þar með tilheyrandi mannfalli og eyðileggingu. Borgin er án vatns og rafmagns og er þar einnig mikill matarskortur.

Skömmu eft­ir að ljóst varð að leik­húsið hefði verið sprengt hélt Joe Biden Banda­ríkja­for­seti blaðamanna­fund. Lofaði hann þar að veita Úkraínu­mönn­um frek­ari varn­ar­búnað, að and­virði eins millj­arðs banda­ríkja­dala.

Þá sagði hann Vladimír Pútín Rússlandsforseta vera stríðsglæpamann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert