Enn hafa engar fregnir borist af mannfallinu eftir umfangsmikla sprengjuárás Rússa á leikhúsið í hafnarborginni Maríupol í gær, þar sem úkraínsk yfirvöld segja hundruð kvenna og barna hafa leitað skjóls.
Serhjí Taruta, úkraínskur þingmaður, segir að einhverjum fórnarlömbum hafi tekist að koma sér út úr sprengiskýlinu í kjallara leikhússins. Lítið er þó vitað um örlög þeirra sem eftir eru.
Í byggingunni, sem er nú gjöreyðilögð, segir Serhjí Orlov, aðstoðarborgarstjóri Maríupol, að 1.000 til 1.200 manns hafa verið þegar árásin var gerð.
Á gervihnattamyndum sem úkraínska þingið hefur deilt á Twitter má sjá að búið var að skrifa orðið „Börn“ á rússnesku við hlið leikhússins í stórum stöfum svo hægt er að lesa þau úr mikilli fjarlægð.
„Samt sem áður stöðvaði þetta ekki hernámsmennina sem skutu loftárás á leikhúsið,“ segir í tísti úkraínska þingsins.
Rússar hafa undanfarna daga og vikur setið um hafnarborgina og hefur sprengjum rignt yfir íbúðahverfi þar með tilheyrandi mannfalli og eyðileggingu. Borgin er án vatns og rafmagns og er þar einnig mikill matarskortur.
Skömmu eftir að ljóst varð að leikhúsið hefði verið sprengt hélt Joe Biden Bandaríkjaforseti blaðamannafund. Lofaði hann þar að veita Úkraínumönnum frekari varnarbúnað, að andvirði eins milljarðs bandaríkjadala.
Þá sagði hann Vladimír Pútín Rússlandsforseta vera stríðsglæpamann.
❗ IMPORTANT ❗
— Verkhovna Rada of Ukraine (@ua_parliament) March 16, 2022
On the square near the destroyed #Mariupol Drama Theater, there was a huge word "CHILDREN" written in russian. Striking satellite imagery shows the inscription in front of and behind the theatre was clearly seen from above.
1,200 civilians were sheltering in it. pic.twitter.com/C0omY87dpa