Óleksí Resníkov úkraínski varnarmálaráðherrann hvatti Evrópusambandið fyrr í dag að viðurkenna Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem stríðsglæpamann. Þá óskaði hann eftir því að sambandið myndi styrkja vopnabirgðir Úkraínumanna enn frekar í stríðinu við hersveitir Rússa og herða refsiaðgerðir.
Þessi hvatning kemur nú degi eftir að Joe Biden Bandaríkjaforseti kallaði rússneska þjóðarleiðtogann stríðsglæpamann vegna sprengjuárása hersveita hans á úkraínskar borgir. Vakti það upp mikla reiði rússneskra stjórnvalda.
„Þetta er ekki einfaldlega stríð, þetta er ríkishryðjuverk. Her árásarmannsins er meðvitað að tortíma óbreyttum borgurum,“ sagði varnarmálaráðherrann þegar hann ávarpaði þingmenn Evrópusambandsins í gegnum fjarfundabúnað.
„Ég biðla til allra Evrópuþingmanna að viðurkenna að Pútín sé stríðsglæpamaður, eins og hefur verið gert í Bandaríkjunum.“
Resníkov minntist grimmilegra árása á hafnarborgina Maríupol í suðurhluta landsins og sprengjuárásarinnar á leikhús þar í gær þar sem úkraínsk yfirvöld hafa sagt um 1.200 konur og börn hafa verið í skjóli.
Þá sagði hann yfir 400 skóla, 110 sjúkrahús og þúsund íbúðablokkir víðsvegar um Úkraínu hafa verið eyðilögð frá því að Pútín hóf innrásina fyrir þremur vikum.
Resníkov hefur þó enn fulla trú á sínu fólki og telur ljóst að Úkraínumenn muni bera sigur úr býtum að lokum. Aftur á móti þurfi þjóðin aðstoð, meðal annars í formi peninga og vopna.
„Við munum vinna. Þetta er bara spurning um verðið sem úkraínska þjóðin mun borga.“
Evrópusambandið hefur þegar útvegað um 500 milljónir evra í vopnakaup til Kænugarðs og er nú til skoðunar að tvöfalda þá upphæð.
Að lokum óskaði Resníkov eftir því að Evrópusambandið myndi herða refsiaðgerðir sínar gegn Rússlandi og þrýsta á fyrirtæki sem hafa ekki þegar dregið viðskipti sín úr landinu.
Þá gagnrýndi hann Vesturlöndin jafnframt fyrir að innleiða ekki svæðisbundið loftferðabann yfir Úkraínu.